Breytingar á ýmsum snyrti- og hreinlætisvörum

Smá breytingar á snyrti- og hreinlætisvörum = Minna heimilissorp (og umhverfisvænna!)

18193227_10212644572126196_8248213674306628367_o

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Já, frekar langur pistill í þetta sinn – en málefnið er mjög áhugavert og skemmtilegt! )

Undanfarið höfum við gert breytingar á notkun og innkaupum á ýmsum snyrti- og hreinlætisvörum heimilisins, í þeim tilgangi að minnka heimilissorpið og verða umhverfisvænni. Enn eru eftir dreggjar/restar/endingartími af þeim vörum sem hafa verið til í heimilis-lagernum frá því í janúar og við getum varla beðið að skipta þeim að út fyrir fullt og allt (sbr. efri hillan á myndinni) fyrir umbúðaminni/umhverfisvænni vörur (sbr. neðri hillan á myndinni).

Eldhúsrúllur og örtrefjaklútar: Við hættum alfarið að nota eldhúsrúllubréf í Meistaramánuðinum/febrúar. Hélt fyrst að það væri ekki hægt með þrjú börn á heimilinu, en viti menn, það gekk svona glimrandi vel – við erum bara þeim mun duglegri að nota í staðinn gamlar taubleiur og tauklúta sem við þvoum. Það hefur sko átt sinn þátt í að minnka sorpið á heimilinu! Veit eiginlega ekki hvenær þessi rúlla þarna á myndinni klárast – við munum á endanum gefa hana nágrannanum… Svo höfum við að sjálfsögðu hætt að nota örtrefjaklúta (e. microfibers cloths) vegna plastagnanna sem frá þeim koma við þvott, sem eru afar mengandi fyrir sjóinn og fæðukeðjuna alla… 🙁

Uppþvottalögur: Við notum ekki mikinn uppþvottalög að staðaldri, en þegar loksins klárast úr brúsanum þá munum við grípa til hinnar klassísku edikblöndu 😉

Uppþvottabursti: Hef verið að leita að uppþvottabursta með löngu tréskafti í staðinn fyrir plastburstann – ennþá án árangurs. Ætli aðrar lausnir verði ekki að duga í bili. Fann t.d. tréburstann á myndinni í Body Shop sem dugar ágætlega, vantar bara á hann almennilegt skaft – ætla að skoða þetta betur…

Tannkrem: Fann tannkrem í Blush sem er í umbúðum úr endurunnu plasti og svo er hægt að skila þeim inn til verslunarinnar eftir notkun til endurnýtingar. Ekkert æðislega bragðgott en það venst strax og krakkarnir eru m.a.s. til í að nota það. Svo er líka hægt að búa til eigið tannkrem úr matarsóda og kókosolíu… kannski maður eigi eftir að prófa það e-n tíma?

Tannburstar: Já, við elskum öll bambus-tannburstana okkar!

Bómull: Mér hefur alltaf fundist gott að geta gripið í bómull, þó ég noti hana ekki mikið. Í stað einnota bómullarinnar keypti ég fjölnota bómull sem má þvo (12 skífur sem eiga að nýtast alls í 4500 skipti! – sjáum nú hvort það standist.) Hef líka séð myndir af hekluðum bómullarskífum og skífum sem hafa verið klipptar niður úr gömlu handklæði – sniðugt!

Handsápa: Sápu-pumpuflaskan inn á gestabaðherbergi (sú síðasta í „Dalnum”) er alveg að klárast – get ekki beðið! Sápustykkin blífa – alltaf.

Raksápa: Keypti „Barbapapa”-sápu í leirkrukku sem dugar örugglega mun lengur en 20 svona Satin Care brúsar! Nýja sápan er hlutfallslega ódýrari og muuuun umhverfisvænni en brúsinn – en með sömu virkni. Hef líka heyrt að hárnæring sé góð raksápa…

Já, það er hægt að gera svo ótalmargt til að minnka heimilissorpið – og gera það umhverfisvænna. Spurningin er bara að byrja e-s staðar og halda svo áfram. Lausnirnar eru þarna úti og það er svo skemmtilegt að finna þær – og eins og í þessum pakka sem hér um ræðir eru þær í heildina mun ódýrari.

Næstu þrautir í snyrtivörudeildinni eru: eyrnapinnar, svitalyktareyðir og tannþráður … púff, það verður smá hausverkur. Við eigum hins vegar sjampó-birgðir sem munu endast okkur út árið en við erum bara tvö fullorðin á heimilinu sem notum svoleiðis. Það verður sem sagt spáð síðar í því en ég ætla þó að hafa augun opin – stundum er t.d. hægt að fá áfyllingar á hárgreiðslustofum.

Eigið góðar stundir – í minna og umhverfisvænna heimilissorpi!

Þessi færsla var birt undir Hreinlætis- og snyrtivörur. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd