Ein áhrifarík leið til að minnka heimilissorpið er að kaupa minna, enda er mesta sorpið sprottið frá varningi sem maður hefur tekið ákvörðun um kaupa eða þiggja.
Stundum berast þó hlutir inn á heimilið án þess að maður hafi verið meðvitaður um það eða valið það sérstaklega, til dæmis í gegnum bréfalúguna. Í mörgum þannig tilfella er um að ræða ákveðin verðmæti sem eru heil og virka fullkomlega – en koma einhverra hluta vegna að engu gagni á heimilinu. Verða umræddir hlutir þ.a.l. góðir sorp-kandídatar um leið og þeir koma inn fyrir dyrnar – og safnast þegar saman kemur! En viti menn, oft er hægt að koma í veg fyrir slíka sóun verðmæta með ýmsum skemmtilegum og oft einföldum leiðum. Hér koma nokkur dæmi:
Möppur frá skólanum frá síðasta skólaári
… við sjáum fram á að nota þær ekki frekar og munum skila þeim aftur til skólans.
Pinnar til að halda saman ægifögrum leikskólalistaverkum
… minnsta málið að fara með þá aftur á leikskólann á mánudaginn til endurnýtingar.
IKEA blýantur
Hver veit? Kannski man maður eftir að kippa þessum með í næstu IKEA-ferð og skila honum í þar til gerða blýantakassa…
Barmmerkja-plasthulstur
… runnu úr einum jakkafatavasa eiginmannsins um daginn. Bæði vegna viðburða sem haldnir voru á vegum vinnunnar. Er ekki hið eina rétta að fara með þau aftur á kontórinn og koma þeim fyrir í kassanum þar sem hin hulstrin eru geymd? (Já, já – næst verða hulstrin skilin eftir í móttöku fundarstaðarins).
Umferðarreglurnar með krökkunum í Kátugötu.
Við eeeelskum Matthildi, Dodda og Innipúkann! Skemmtilegar og fræðandi sögur þar sem umferðarreglur eru til umfjöllunar. Samgöngustofa sendir þessar bækur og geisladiska á heimili barna sem eru á aldrinum fjögurra til sjö ára. Við eigum ennþá allar bækurnar sem elsta barnið fékk sent á sínum tíma og þær eru lesnar reglulega. Eftir að fyrsta bókin barst miðjubarninu höfðum við samband við Samgöngustofu og óskuðum góðfúslega eftir því að hann og yngri bróðir hans yrðu teknir af póstlistanum, enda sóun að fá þrjú eintök af hverri bók á heimilið þótt um frábært efni væri að ræða! Það þótti nú alveg sjálfsagt mál af hálfu stofnunarinnar.
Dagatal í hörðum plastramma, sent í markpósti.
Í janúar sl. fengum við dagatal sent heim frá fyrirtækinu sem hefur selt okkur olíu til húshitunar sl. þrjú ár. Vörumerki fyrirtækisins hafði verið komið fyrir á dagatalinu og því fylgdu góðar kveðjur frá sendanum um gott nýtt ár (ætli þetta hafi verið sent í markaðsskyni?!?). Dagatalið var úr hörðu plasti, því var pakkað inn í plast og var sett í umslag sem fóðrað var með bóluplasti. Nokkuð töff!
Við töldum okkur ekki hafa þörf fyrir þennan hlut og ákváðum að ráðast í smá gjörning að hætti „Zero Waste”-gellunnar Beu Johnson. Við sendum pakkann aftur til fyrirtækisins ásamt bréfi þar sem við afþökkuðum dagatalið pent. Við lögðum kurteisislega til að ef fyrirtækið vildi endilega halda áfram að senda viðskiptavinum sínum dagatöl (þeir sendu okkur svona líka í byrjun síðasta árs og fór þá beint í plastdallinum), þá væri kannski betra að það væri búið til úr pappír, jafnvel endurunnum. Ekki er ég viss um að þessi endursending muni hafa mikil áhrif – kannski þeir hafi ekki einu sinni skilið okkar fínu google-frönsku… En hver veit, dropinn holar steininn. Í það minnsta reyndum við að koma skilaboðum okkar á framfæri og dagatalið lenti ekki í heimilissorpinu okkar.