Hvað þarf kona að eiga marga Kvennahlaupsboli inni í skáp? 

Kvennahlaupið hefur verið haldið síðan 1990. Er e-r sem á 29 Kvennahlaupsboli inn í skáp og hefur þörf fyrir þá alla – og alla hina sem eiga eftir að bætast við safnið á hverju ári næstu áratugina?  🤔

Sama á við um Reykavíkurmaraþonið, sem hefur verið haldið síðan 1984 – og aðra hlaupaviðburði auðvitað…

Eins og líklega á mörgum öðrum heimilum, er bola-lager fjölskyldunnar við það að springa, þannig að við höfum í raun engin not fyrir nýja boli næstu áratugina.

Þess vegna vildi ég svo innilega óska að við skráningu í hlaupaviðburði væri hægt að afþakka bolina sem oftar en ekki fylgja með (og verðlaunapeningana líka). Því miður er þetta yfirleitt ekki raunin en þá má í staðinn sleppa því að taka við bolnum þegar hlaupagögnin eru sótt (og það sama á við um verðlaunapeninginn sem er afhentur í markinu). Auðvitað er það frekar seint í rassinn gripið en það gefur a.m.k. hlaupaskipuleggjendum ákveðin skilaboð og heimilissorpið verður minna fyrir vikið..

Ef engin sérstök not eru fyrir þessa hlaupaboli fylgir þeim mikil sóun m.a. á efni, vatni, vinnutíma og kolefnislosun við flutning þeirra til landsins. Þar fyrir utan eru þeir úr þvílíkum gerviefnum (yfirleitt 100% pólýester) sem drita örplasti út í sjóinn við þvott auk þess sem þeir eru lengi að brotna niður þegar þeim hefur verið komið fyrir í landfyllingu að nýtingartíma loknum. Og hana nú! 😉

Ég held að hlaupaviðburðaskipuleggjendur, styrktaraðilar og við þátttakendur getum auðveldlega gert miklu betur hér. Sem þátttakandi gæti ég t.d. mætt í næsta Kvennahlaup í Kvennahlaupsbol frá árinu 2016 sem ég á inni í skáp – og hætt að þiggja nýja Kvennahlaupsboli héðan í frá.

Er virkilega nauðsynlegt að gefa/þiggja bol á hverjum hlaupaviðburði?  🤔

PS. Varðandi Kvennahlaupið; auðvitað er hrikalega flott og áhrifaríkt að sjá okkur allar konurnar, saman komnar og hlaupa í eins bolum. Það er geggjað og merki um sterka samstöðu. Við myndum líklega missa þann „effect“ ef við mættum í mismunandi lit frá mismunandi árum. Þetta er hægt að leysa með því að byrja að hafa alltaf sama litinn á mili ára, eins og gert er í Reykjavíkurmaraþoninu.

Þannig þyrftu 10-15.000 þátttakendur ekki að eignast nýjan bol í hverju hlaupi, heldur bara þær sem eru að taka þátt í fyrsta skiptið – án þess að það kæmi niður á samstöðuyfirbragðinu. 💪👊🤝

Ég get líka gert mér í hugarlund að framleiðsla og dreifing á þessum bolum með vörumerkjum styrktaraðila sé ein fjáröflunarleið hlaupsins. En ég meina, come on, allt þetta frábæra markaðsfólk hlýtur að gera fundið sjálfbærari leiðir til að koma aðild sinni að viðburðinum á framfæri.🤓

PPS. Sorrý, ég ætla alls ekki að drepa niður stemninguna fyrir Kvennahlaupinu eða öðrum hlaupum – ég elska að taka þátt í þessum viðburðum og þeir eru gríðarlega hvetjandi og valdeflandi á margan hátt. En það er svo sannarlega hægt að gera svo miiiiklu betur varðandi þessa boli (og sorpstjórnun (e. waste management) slíkra viðburða almennt) án þess að það komi niður á upplifun þátttakenda – nema síður sé. Við það geta líka opnast ný tækifæri til fjáröflunar og lækkun kostnaðar fyrir skipuleggjendur. Pæling.

Over and out.

Kvennahlaup Reykjavíkurmaraþon bolir afþakka minni sóun

Það væri frábært ef hægt væri að afþakka boli við skráningu í hlaupaviðburði – það hefði í för með sér minni sóun!

Þessi færsla var birt undir Á ferðinni, Ýmis heimilisvarningur, Nærumhverfið, Sorppælingar. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s