30 vistvæn jólaráð

 

#1 Fjölnota dagatöl, jafnvel heimatilbúin

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

#2 Forðast innkaup á hlutum og fatnaði með glimmerskreytingum

Fátt gerir jólavarning jafn hátíðlegan og gott dass af glimmeri. En það sem verra er; yfirleitt er glimmer örplastsdjöfull 👹 í bling-bling-mynd . Þannig má taka nokkur auðveld vistvæn spor með því að sneiða hreinlega fram hjá innkaupum á glimmerskreyttum jólavarningi. Ef ekki er hægt að halda jól án blingsins er um að gera að nota það glimmerskraut sem þegar er til á heimilinu – eða finna glimmer úr efnum sem brotna niður í náttúrunni.

 

3.Heimabyggð

#3 Verlsa í heimabyggð

Sorrý. Kínverskar netverslunarsíður og jólagjafaleiðangrar til erlendra borga gera því miður ekki gott vistvænt mót…

(Í heimabyggð er til dæmis mikið úrval af innlendri framleiðslu/viðburðum/þjónustu sem ekki er mögulegt að versla erlendis frá.

Í heimabyggð er ennfremur hægt að versla erlendan varning frá löndum sem ekki eru jafnfjarlæg og Kína.

Svo má ímynda sér að flutningur á t.d. stöku skópari sem einstaklingur pantar í gegnum netið og fær sent í pósti skilji eftir sig hlutfallslega stærra kolefnisfótspor heldur en ef sama skópar væri hluti af stærri skósendingu sem verslun pantar og selur svo til einstaklinga.)

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

#4 Ekki kaupa fleiri rúllur af gjafapappír

Nota í staðinn til dæmis:
– Fjölnota poka (jafnvel heimatilbúna t.d. úr gömlum gardínum og dúkum)
– Notaðan pappír frá fyrri jólum.
– Annan pappír sem þegar er til á heimilinu og gaman væri að skreyta t.d. með teikningum eða klippimyndum.
– Dagblöð og auglýsingabæklinga.

PS. Svo má sleppa límbandinu en nota í staðinn hveitilím (blanda af vatni og hveiti, 3:1). Líka hægt að sleppa líminu alveg og láta umhverfisvæn bönd sjá um að halda pakkanum saman. 😉

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

#5 Ekki kaupa merkimiða á pakkana

Hvað er hægt að gera í staðinn? Jú, til dæmis:
– Skrifa nöfn þiggjanda og gefanda fallega beint á pakkann.
– Búa til merkimiða úr gömlum jólakortum.
– Geyma merkimiða á gjafir sem gefnar eru innan fjölskyldunnar, þá er hægt að nota jól eftir jól.😉

 

 

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

#6 Nota vistvænt pakkaskraut 🎁

Í gegnum jólatíðina hef ég oft misst mig í glimmer-gervi-greinum, krulluböndum og alls konar skrúðli og prúðli við jólagjafainnpökkun.

Við höfum e-n veginn misst alla lyst til að halda þeirri stefnu áfram en reynum frekar að vinna með köngla, grenigreinar og öðru sniðugðu úr náttúrunni. Pakkabönd úr höri og pappír hafa líka komið sterkt inn. Stundum er föndrað e-ð skraut úr því efni sem til er á heimilinu og það sett utan á pakkana. Nú, svo er að sjálfsögðu hægt að sleppa öllu skrauti. „Less is more“ sagði einhver!

 

7.Jólakötturinn

#7 Förum í jólaköttinn – alsæl!
—⠀
Vefnaðarvöruiðnaðurinn er annar mest mengandi iðnaðurinn í heimi, á eftir olíuframleiðslu.⠀

Útblástur frá skynditískubransanum (e. „fast fashion“) er meiri en frá flugiðnaðinum. Á sama tíma endar meira en helmingur af skynditískuvarningi í urðu eða brennslu innan árs frá því hann var framleiddur.⠀

Það þarf um 2,700 lítra af vatni til að búa til einn bómullarbol, sem er jafnmikið vatn og einstaklingur drekkur á u.þ.b. þremur árum.⠀

Þannig að já, um jólin ætlum við foreldrarnir að fara í eitthvað af þeim sparifötum sem hanga nú þegar inni í skáp og blessuð börnin munu nota fatnað sem þau hafa verið arfleidd af eða við kaupum notuð.⠀

Markmiðið er: Enginn í fjölskyldunni fær ný klæði fyrir jólin. Við förum öll í jólaköttinn – alsæl!⠀

…það mun líka spara pening og heilmikla fyrirhöfn.⠀

Telji maður sig ekki geta verið án ákveðinnar flíkur er gott að spyrja:⠀

– Er flíkin raunverulega svo nauðsynleg?⠀
– Er hægt að nota e-rja aðra flík í staðinn?⠀
– Er hægt að kaupa flíkina notaða? Fá hana leigða? Eða lánaða hjá ættingjum og vinum?⠀

PS. Hvernig er annars með þennan jólakött? Hann þroskaðist og dafnaði í samfélagi fátæktar og skorts. Hins vegar lifir nú fólk almennt við ofgnótt og allsnægtir. Kisi greyið hlýtur að vera orðinn hungurmorða. Spurning um að fara í björgunaraðgerðir og kollvarpa persónuleika hans þannig að þeir sem eignast nýjan fatnað fyrir jólin hitti kattarskömmina fyrir?⠀

(Meðfylgjandi mynd var fengin úr hinni frábæru bók „Jólakötturinn tekinn í gegn“ eftir Brian Pilkington.)⠀

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

#8 Afþakka gjafir

… til vara, óska eftir framlögum til góðra málefna (t.d. til ABC, Unicef, Hjálparstarfs kirkjunnar, Votlendissjóðsins … osfrv.)⠀
—⠀
Þessi jól, eins og þrenn undanfarin jól, munum við Ömmi fara að fordæmi Auðar mágkonu og láta ættingja vita að við hjónin afþökkum pent jólagjafir en finnist fólki eitthvað óþægilegt að gefa ekki neitt þá þætti okkur afar vænt um að fá gjafabréf frá hjálparstofnun eða framlög til kolefnisjöfnunarverkefna. 💚🎄

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

#9 Gefa færri gjafir

Þetta er ekki spurning um magn eða verðmiða gjafanna – heldur gæði og fá tækifæri til að njóta. ⠀
—⠀
Fyrir tveimur árum héldum við jólin í Paragvæ. Þar fékk hvert barn bara einn pakka á aðfangadagskvöld og hann var frá jólasveininum. Þau voru auðvitað alsæl. Þar tíðkast ekki að skiptast á gjöfum. Ekki flókið mál þar á bæ.⠀

Eftir að við eignuðumst börn hefur stundum varla sést í jólatréð fyrir fallegum gjöfum. Við höfum séð okkur tilneydd til að skipta pakkaopnuninni í tvennt; annars vegar á aðfangadagskvöld og hins vegar á jóladag. Gæti það þýtt ofgnótt?🤔

Auðvitað er þetta yndislegur siður, að gefa og þiggja, en herbergi barnanna eru stútfull af leikföngum og okkur skortir ekkert. Allt þetta pakkaflóð gaf okkur í raun óbragð í munninn. Frekar brengluð staða!!! Fyrir um þremur árum byrjuðum við því að vinna í að stytta jólagjafalistann og skiptast eingöngu á gjöfum við nánustu ættingja.⠀

En úff, það getur auðvitað verið viðkvæmt, erfitt og kannski hallærislegt að strika fólk út af margra ára gömlum jólagjafalista. Á bara að setja mann og annan allt í einu út í jólagjafakuldann?!?!⠀

Við höfum gert þetta smám saman með því að ræða þetta hreinlega við viðkomandi aðila og komist að sameiginlegri niðurstöðu um að hætta að skiptast á gjöfum. Þegar ég ræddi þetta mál til dæmis við tvær vinkonur mínar tókur þær vel í hugmyndina og við ákváðum að fara bara saman út að borða í staðinn.⠀

Og nú, önnur jólin í röð, fær hver einstaklingur í okkar fimm manna fjölskyldu eina gjöf frá öllum hinum sameiginlega, í stað þess að fá pakka frá foreldrum/maka annars vegar og svo systkinum/börnum hins vegar. ⠀

(…reyndar eru börnin þegar farin að búa til ýmsar gjafir handa fjölskyldunni. Reglurnar eru því miður strangar þannig að þær fara ekki undir tréð … … iiii, djók!!!! 🙃)⠀

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

#10 Sleppa bökunarpappír og sílikonmottum við smákökubaksturinn

Í staðinn má smyrja smá olíu á ofnplöturnar. Það svínvirkar í allt sem baka/elda þarf í ofninum; smákökubakstur, pizzugerð  o.s.frv.

(Ef sílíkonmottur eru þegar til á heimilinu er um að gera að nota þær áfram  )

 

 

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

#11 Senda vistvænni/færri/engin jólakort

Hætta alveg að senda jólakort? Viðurkenni að ég á svolítið erfitt með þá tilhugsun. Fyrir mér eru jólakortin stór og yndislegur hluti af jólaundirbúningnum og sjálfu aðfangadagskvöldinu þegar kortin eru tekin upp og lesin. Í fyrra sendum við færri jólakort en áður; aðrir fengu persónulega kveðju með rafrænum hætti og mér fannst það nú kannski ekkert mikið síðra.

Vistvænni jólakort eru t.d. þau sem eru:
– Án glimmers.
– Föndruð úr efnivið sem þegar er til heima.
– Smærri frekar en stærri.
– Úr þynnri pappír en þykkari.

Önnur hugmynd sem ég heyrði fólst í því að taka jólakort sem t.d. Jóna frænka sendi þér í fyrra, skrifa henni jólakveðju á sama kort (t.d „Takk sömuleiðis!“) og senda til baka! Nettur húmor, frumlegt og skemmtilegt! 😂

Í staðinn fyrir jólakort má senda rafræna jólakveðju eða jafnvel hringja í fólk og spjalla. Það kunna margir vel að meta að fá símhringingu frá ættingja/vini sem þeir hafa ekki heyrt lengi í. ☎️

 

#12 Lífrænar jólaskreytingar á leiðin

Þetta jólaráð er eitt af mínum uppáhalds… 😊❤️

Íslensk furugrein með rauðum eplum, sem fuglarnir geta svo gætt sér á. Hörband notað til að binda saman – þarf ekki að vera. Fuglafræjum stráð í kring og jafnvel kveikt á Svansvottuðu kerti. Dæmi um fallega snilldarlausn í vistvænni kantinum sem auðvelt er að setja saman sjálf/ur. 💚🌿🍎

Á neðri hluta meðfylgjandi myndar eru tvær sjokkerandi myndir frá jólahreinsun úr einum af kirkjugörðum höfuðborgarsvæðisins. Þarna má sjá einn af fjórum gámum, sem voru fullir af rándýrum krönsum, plastböndum, glimmeri, plastkúlum, plastborðum, vírum, rafleiðslum, rafhlöðum… o.s.frv.⠀

Starfsfólk kirkjugarðanna reynir að flokka plasCollage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com
t og lífrænt í sundur en það reynist víst erfitt því allt er bundið fast saman með vírum og plastböndum.⠀

Að sjálfsögðu er þetta fallegur og yndislegur siður; að mi
nnast látinna ættingja og vina með því að setja fallegar skreytingar á leiði þeirra. En gleymum ekki að skreytingarnar verða að úrgangi fyrr en síðar og því farsælast að þær séu eins lífrænar og kostur er.⠀

Það er því um að gera að velja frekar vistvænan kost sem breytist í lífrænan úrgang þegar hlutverki skreytingarinnar lýkur. ⠀

Annar kostur í stöðunni? Að bera ábyrgð á þeim skreytingum sem maður kemur fyrir í kirkjugörðum, sækja þær eftir hátíðarnar og endurnýta þann hluta sem ekki er lífrænn (t.d. í leiðisskreytingu fyrir næstu jól) – eða a.m.k. rífa þær í sundur og flokka úrganginn sem þær mynda.⠀

Það ætti líka að vera auðsótt mál fyrir blómabúðir af öllum stærðum að gerðum að bjóða upp á vistvænar skreytingar. Hvet sem flesta til að kalla eftir slíkum lausnum hjá viðkomandi aðilum, hvort heldur sem er með símtölum, bréfum, tölvupóstum eða í næstu búðarferð. Margt smátt gerir eitt stórt.❤️

Bestu þakkir til Helle Laks, garðyrkjufræðings í einum kirkjugarði höfuðborgarsvæðisins, fyrir að vekja athygli mína á þessu máli og fyrir sorpmyndirnar tvær.⠀

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com#13 Gefa bækur
– – –
Bók er algjörlega frábær jólagjöf. Bókin er vistvænn jólagjafakostur, veitir ljúfar gæðastundir og opnar dyr að nýjum heimum, reynslubönkum og þekkingu. Það eru ýmsar leiðir til að nálgast bækur til að gefa. Sumar eru vistvænni en aðrar.

Dæmi:
– Kaupa nýjar bækur úr spennandi jólabókaflóðinu.
– Kaupa notaðar bækur í fornbókabúð, Kolaportinu eða á öðrum nytjamörkuðum. Þar má oft finna klassíska gullmola!
– Gefa bók úr bókasafni heimilisins.
– Gefa áskrift að Storytel (íslenskar hljóðbækur).
– Gefa bókasafnsskírteini.

 

#14 Elda grænmetismáltíð í stað kjötmetis a.m.k. einu sinni yfir hátíðarnar
– – –
Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

Langáhrifaríkasta leiðin til að minnka neikvæð umhverfisáhrif þín er að minnka/hætta neyslu dýraafurða.⠀

Um jólin fer í hönd mikil kjötneysluhátíð á mörgum heimilum. Hjá þeim sömu er því vistvænt dauðafæri hér á ferðinni, þ.e. að endurskipuleggja a.m.k. eina máltíð yfir hátíðarnar sem iðulega er með kjöt í aðalrétt og útbúa í staðinn dýrindis grænmetisrétt (grænkeraréttur væri enn betri!). Fyrir marga gæti þetta um leið verið spennandi áskorun og tækifæri til að læra eitthvað nýtt.⠀

Við höfum minnkað neyslu dýraafurða til mikilla muna á sl. tveimur árum og ég held ég hafi aldrei smakkað bragðvondan grænmetis- eða grænkerarétt. Þetta hefur líka verið frábær leið til að tileinka sér nýja hluti, þróa sig áfram í eldhúsinu og bæta mataræðið almennt. Við höfum unnið í þessu hægt og rólega og þá verður þetta ekki svo flókið. 😉

Í fyrra vorum við í æðislegri veislu þar sem bornir voru fram dýrindis kjöt- og veganréttir. Þegar kokkurinn steig fram til að kynna hvað væri á boðstólnum sá hún sig tilneydda til að gera stólpagrín að grænkerum. Í raun þannig að hún lítillækkaði þau að mínu mati og ég varð eiginlega verulega móðguð fyrir hönd vegana (ég hef ekki hætt allri neyslu dýraafurða og get því miður ekki sagst tilheyra þeim hópi alveg 100% … ennþá). Grænkerarnir í veislunni sögðu mér að þetta væri viðhorf sem þeir mættu oft. Ha?!? Hvernig má það vera? Þetta er nefnilega einmitt svalasta fólkið sem við ættum að hampa og taka okkur til fyrirmyndar!!!!⠀

Minni/engin neysla dýraafurða leiðir til minni vatnsnotkunar, landnotkunar, ofauðgunar og losunar gróðurhúsaloftegunda. Auk þess leiðir slík neysla til minni áhrifa á súrnun sjávar. Áhrifin eru því mun víðtækari per se heldur en að fækka flugferðum eða keyra rafdrifnum.⠀

Við erum a.m.k. búin að panta hnetusteik hjá Gló 😋

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com#15 Gefa gjafir sem stuðla að vistvænum lífsstíl

Yfirleitt er um fallega, nýtilega og skemmtilega gripi að ræða sem gaman er að gefa og þiggja!

Dæmi:
-Sápustykki fyrir hand- og hárþvott.
-Fjölnota bómullarskífur.
-Tannbursti úr bambus og umbúðalausar tannkremstöflur. (Já, hví ekki? Frekar flippað!)
-Fjölnota vatnsflaska.
-Fjölnota kaffimál.
-Fjölnota pokar fyrir innkaup, grænmeti, ávexti, nesti, brauð…
– Fjölnota bökunarform fyrir bollakökur.
– Falleg nestisbox úr bambus eða áli.
– Fjölnota skeið/hnífaparasett í veskið og ferðalagið.
– O.s.frv.

Þessar og fleiri hugmyndir á svipuðum nótum má finna hjá Vistveru í Grímsbæ, mistur.is, fjolnota.is, bambus.is, vonir.is, vistvaenframtid.is og örugglega víðar.

(NB. Ég er ekki í samstarfi við neinn aðila. Ég nefni þessar verslanir hér bara til upplýsinga og hægðarauka fyrir þá sem hafa áhuga.😉)

 

#16 Takmarka matarsóun til hins ýtrasta – líka á jólahlaðborðum 😉
Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com
-Árlega henda Reykvíkingar mat að andvirði 4,5 milljarða króna.*⠀
-Heildarmatarsóun á fjóra íbúa myndar jafn mikið af gróðurhúsalofttegundum og útblástur frá meðalbensínbíl á einu ári!*⠀
-Þriðjungur þess matar sem keyptur er inn á heimili fer beint í ruslið.**⠀

Minni matarsóun þýðir:⠀
-Minni útblástur gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu matar og urðun.⠀
-Minni sóun á náttúruauðlindum.⠀
-Þyngri budda! (NB. Kannski ekki til að kaupa fleiri hluti… er ekki sniðugra að horfa á það þannig að þyngri budda gefi svigrúm til að vinna minna? 😉).⠀

Hvernig má minnka matarsóun um jólin:⠀
-Gera matseðil, með tilliti til þess að það verða stundum afgangar á matarborðinu e-r kvöld yfir jóladagana (… og ekki gleyma grænmetisréttinum 😉).⠀
-Gera innkaupalista á grundvelli matseðilsins.⠀
-Elda rétt magn.⠀
-Nýta afganga.⠀
-Frysta afganga.⠀
-Setja minna á diskinn á jólahlaðborðunum, fara fleiri ferðir. Njóta hvers munnbita! 😋

* skv. https://landvernd.is/matarsoun⠀
** skv. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO)⠀

 

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com#17 Velja vistvænt jólatré

Og hvað er vistvænt jólatré?
Svar: Það fer eftir ýmsu…⠀

1. Ef gervitré er þegar til á heimilinu, þá nota það. ⠀
2. Kaupa notað gervitré.⠀
3. Kaupa/höggva íslenskt grenitré (í tengslum við grisjun skóga).⠀
4. Kaupa íslenskt grenitré í potti (fæst það ekki e-s staðar?) og gróðursetja svo eftir jól. (NB. Þarf að fara varlega, gæti verið sjokk fyrir plönturnar að fara aftur út. Sumar gróðarstöðvar taka aftur við trjánum og koma þeim á góðan stað).⠀

Verstu kostirnir eru líklega:

5. Kaupa nýtt plastjólatré (ef notað í 20 jól þá gæti það samt orðið vistvænni kostur en lifandi tré  )

6. Kaupa erlent grenitré. Ókostir þeirra í samanburði við íslensk tré: Víða erlendis eru notuð illgresis- og skordýraeitur, af trjánum getur stafað sjúkdómahætta og orkunotkun vegna flutninga er að sjálfsögðu meiri. 

Þá eru handgerð jólatré úr við, líkt og þau sem notuð voru á íslenskum heimilum hér áður fyrr, afar vistvæn leið og yndisleg! Þau er hægt að kaupa eða jafnvel búa til sjálf/ur. Nú eða nota sköpunargáfuna (með hjálp veraldarvefsins og föndurbóka) og búa til eigið „tré“ úr því sem þegar er til á heimilinu. Ég veit líka um eina fjölskyldu sem skreytir alltaf eina af pottaplöntum heimilisins í stað grenitrés…⠀

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com#18 Nota vistvænt skraut á jólatréð

Til dæmis með því að:
– Nota það skraut sem við eigum þegar – kaupum ekki nýtt. 😉
– Viljum við endurnýja skrautið þá kaupa það notað t.d. á nytjamörkuðum.
– Föndra skraut úr náttúrulegum efnum, pappír eða öðrum efnum sem eru til heima. Líka hægt að kaupa efni til að föndra úr á nytjamörkuðum. Sumir búa til skraut úr e-ju matarkyns t.d. piparkökum eða poppi.
– Reyna að laga bilaðar jólaseríur með nýjum perum.

 

#19 Búa til gjafir

Það er um að gera að nota hæfileika sína og aðstæður til að skapa e-ð fallegt í jólapakkana fyrir ættingja og vini.

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.comHér eru nokkur dæmi nefnd:
– Skrifa ljóð.
– Prjóna lopapeysu, vettlinga, sokka, trefla….
– Hekla bómullarskífur, dúka, teppi…
– Útbúa e-ð matarkyns, t.d. konfekt, sultur, smákökur…
– Búa til fallegar myndir.
– Smíða, perla eða leira skartskripi.
– Hnýta flugur.
– Búa til sápur og baðsölt.
– Búa til ljósmyndabók / albúm.
– O.s.frv. o.s.frv.

 

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com#20 Nota vistvænar borðskreytingar

…til dæmis með því að:
– Nota umhverfisvæn kerti, t.d. úr stearín (ekki samt framleitt úr pálmaolíu, Svansmerkt), sojavaxi, býflugnavaxi eða tólgi. Í því sambandi er gott að hafa í hug að Sólheimar taka við kertaafgöngum til endurvinnslu.
– Nota fjölnota tauservíettur (ef ekki, þá umhverfismerktar einnota servíettur).
– Nota skrautmuni úr náttúrunni.
– Nýta það sem þegar er til á heimilinu.
– Ekki kaupa nýtt skraut.
– Láta glimmerið (=plastagnir) alveg eiga sig. 😉

Hér er frábær pistill eftir Stefán Gíslason um kerti: http://www.ruv.is/frett/umhverfisahrif-kerta

 

#21 Gefa notaða muni

Að gefa notað þýðir EKKI að maður sé nískur, fátækur eða púkalegur (stimplar sem sumir kæra sig ekki um 😅).

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.comAð gefa notað þýðir að maður sé skynsamur, sniðugur og svalur því þannig eru margar sóunarflugur slegnar í einu höggi:
– Hlutum er gefið framhaldslíf.
– Komið er í veg fyrir að nýir munir fari í umferð með tilheyrandi mengun og auðlindanýtingu við framleiðslu þeirra, flutning og sölu.
– Minni/engar umbúðir.
– Maður fær fín verðmæti fyrir minni pening en ella, og þá er jafnvel hægt að gefa marga flotta notaða hluti á verði eins sé vilji til þess.

Hafi maður tímann fyrir sér og leitar vel á hinum ýmsum sölusíðum alnetsins eða á nytjamörkuðum, þá er oft hægt að gera frábær kaup á lítið notuðum og vel með förnum hlutum sem hægt er að gefa, sérstaklega ef vitað er hvað þiggjandann langar sérstaklega í eða vantar. Oft getur þetta líka orðið persónulegri gjöf en ef keyptur væri nýr hlutur.

Hér getum við verið að tala um bækur, hjól, skíði, kaffivélar og ýmis raftæki, húsgögn, antíkmuni, merkjaföt, leikföng, hljóðfæri o.s.frv.

Um síðustu jól fékk ég til dæmis notað reiðhjól í síðbúna jólagjöf frá fjölskyldunni, í stað þess gamla sem hafði verið stolið.

Ein jólin gáfum við strákunum okkar fullorðins sængur; það reyndust vera gestasængur sem við áttum í geymslunni. Við höfum líka gefið börnunum okkar notuð skíði og notaða Lego-kubba keypta á Bland.is. Systir mín gaf okkur forláta antíkklukku í brúðkaupsgjöf hérna um árið … og svo mætti lengi telja… Sem sagt: Notað er málið!

Dæmi um sölusíður á netinu með notaða hluti:
– bland.is
– kassi.is
– Ótal Facebook sölusíður um ólíka hluti
– o.s.frv.

Ef maður finnur ekki það sem leitað er að er um að gera að óska eftir viðkomandi hlut til að kaupa.

Dæmi um sölustaði með notaða hluti og fatnað:
– Kolaportið
– Góði hirðirinn
– Barnaloppan, Skeifunni 11 (notaðar barnavörur)
– Nytjamarkaður Samhjálpar, Ármúla 11
– Basarinn, Háaleitisbraut 68, Austurveri
– Nytjamarkaður ABC, Hafnarfirði og Kópavogi
– Rauðakrossbúðirnar á Hlemmi og í Mjódd
– Hertex, Grafarholti
– Notuð húsgögn, Skemmuvegi 6, Kópavogi
– Fornbókabúðin, Klapparstíg 25-27
– Spúútnik, Kringlunni og Laugavegi
– Stefánsbúð
– Aftur
– Sisters ReDesign
– Antíkverslanir
– Kompan, Reykjanesbæ
– Nytjamarkaðurinn, Selfossi
– Nytjamarkaður Körfuknattleiksdeildar Skallagríms, Borgarnesi
– Rauði krossinn, Borgarfirði
– Búkolla, Akranesi
– Antíkmarkaður Kristbjargar Traustadóttur, Akranesi
– Rauði krossinn, Sauðárkróki
– Geðræktarmiðstöðin Vesturafl, Ísafirði
– Græni Unginn, Akureyri (notaðar barnavörur)
– Hertex, Akureyri
– Fjölsmiðjan, Akureyri
– Rauði krossin á Akureyri
– Rauði Krossinn á Húsavík

 

#22 Nota skynsemina til að streitast á móti óvæntri stundar-innkaupa-þrá … sem oft getur brotist út í miðri jólaverslun 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com…nokkuð sem við gerðum einmitt þegar við sáum þetta „gasalega sniðuga“ sýndarveruleika-gleraugna-apparat.

… eða, já, nei … kannski ekki alveg …

Gaurinn var keyptur í algjöru stundarbrjálæði og án nokkurrar umhugsunar. Það var ekki fyrr en við vorum komin út úr innkaupahringiðunni að við fórum að velta kaupunum fyrir okkur og við sáum allt í réttu ljósi. Það var eins og dómgreindinni hafi verið sópað í burtu þarna inni í búðinni. Hvað gerðist eiginlega???

Svo las ég þetta 👇 og tengdi:

Neysluguð samtímans er í engu frábrugðinn hinum fornum guðum mannsins: Hann krefst fórna. Og fyrsta fórn okkar er heilbrigð skynsemi.“

(Jón Kalman Stefánsson, Saga Ástu, 2017).

 

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com#23 Gefa vistvænar gjafir

Verður ekki „Black Friday“ tilboð á öllum vistvænum gjöfum n.k. föstudag? Möguleikarnir eru óteljandi…

– Inneignarmiðar fyrir þjónustu/aðstoð/félagsskap gefandans. Matarboð, göngutúr, spilakvöld, þrif, barnapössun, óvissuferð o.s.frv. Nú til dags er „tími“ það verðmætasta sem maður getur gefið, ekki satt?
-Finna gömul bréf sem þiggjandi hefur sent gefanda í gegnum tíðina, setja í huggulegan kassa og láta gott súkkulaði fylgja með til að nasla á ferðalaginu niður „Memory Lane“.
– Kolefnisjöfnun fyrir bifreiðanotkun næsta árs, hjá Votlendissjóðnum eða Kolviði.
– Gjafabréf hjá hjálparstofnunum (t.d. hjá ABC, Unicef og Hjálparstofnun kirkjunnar).
– Bækur (sjá nánar ráð #13).
– Gjafir sem stuðla að vistvænum lífsstíl (sjá nánar ráð #15).
– Búa til gjafir (sjá nánar ráð #19).
– Notaðir munir (sjá nánar ráð #21).
– Upplifun/viðburðir: Gjafabréf í bíó, leikhús, tónleika, keilu, Hörpu, listasöfn…
– Áskriftir: Tímarit, Spotify, Storytel, ávaxta- eða græntmetiskassa hjá Bændum í bænum, Lottó…
– Gjafabréf fyrir þrif á bíl eða heimilisþrif (t.d. hjá Náttúruþrifum).
– Lottómiðar og happaþrennur.
– Gefa hluti sem hafa e.k. vottun, t.d. merktir Svaninum, Evrópublóminu eða FairTrade. Sjá nánar hér www.ust.is/…/graenn-lif…/umhverfismerki/ymis-umhverfismerki/
– Gefa gúmmelaði í vistvænum umbúðum t.d. kaffi, te, súkkulaði.
– Gjafabréf á Svansvottuð hótel, kaffihús eða veitingahús.
– Íslenskt handverk og íslensk hönnun.
– O.s.frv.

(NB. Ég er ekki í neinu samstarfi við neinn. Ég nefni hér tiltekna aðila bara til upplýsinga og hægðarauka fyrir þá sem vilja. 😉 )

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com#24 Nota umhverfisvæn eldfæri

Velja umhverfisvænar eldspýtur, næst þegar kaupa þarf eldfæri á heimilið.

Muna líka eftir umhverfisvænu kertunum, t.d. kerti úr stearíni (Svansmerkt kerti), sojavaxi, býflugnavaxi eða tólg – og án glimmers og ilmefna. Gefa svo kertaafganga til Sólheima og koma áli úr sprittkertum í endurvinnslu. 😉

 

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

#25 Velja vistvænar gjafir fyrir börnin

En hvað með blessuð börnin? Hér eru nokkrar hugmyndir að vistvænum gjöfum handa þeim:

– Sérstök samverustund (t.d. fjallganga, ferðlag, spilakvöld, bakstursdagur o.s.frv.).
– Notuð leikföng af sölusíðum á netinu eða nytjamörkuðum (t.d. Lego, Playmo, skíði, hjól o.s.frv.).
– Vel með farin barnaföt frá Barnaloppunni, Skeifunni eða Græna unganum, Akureyri.
– Bækur – jafnvel notaðar!
– Tréleikföng.
– Pússl.
– Áskrift að Andrés Önd.
– Leikföng sem heimilisfólk er hætt að nota og er í góðu ástandi.
– Miðar í leikhús, bíó, tónleika eða annan viðburð.
– Forðast leikföng með batteríi.
– Forðast skó, fatnað og annan varning með glimmeri (=plastagnir), pallíettum og ljósum.
– O.s.frv

Jæja, þetta var síðasta jólafærslan með sérstökum gjafahugmyndum. Fleiri hugmyndir varðandi gjafir má finna í ráðum #13, #15, #19, #21 og #25.

Hér er líka tilefni til að nefna að ég er ekki samstarfi við neinn. Ég nefni hér tiltekna aðila til upplýsinga og hægðarauka fyrir þá sem vilja. 😉

 

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

#26 Kolefnisjafna jólahaldið

Við borgum fyrir síma, rafmagn, hita og vatn. Af hverju ekki líka fyrir að menga?

Ekki vitum við hve stórt sótspor jólahald okkar fjölskyldunnar mun mynda en það er þó hægt að halda því í skefjum með vistvænni hugsun. Líka með stuðningi við kolefnisjöfnunarverkefni – svona til að reyna að bera smá ábyrgð á neikvæðum umhverfsáhrifum jólaneyslunnar…😅

Á Íslandi eru að minnsta kosti tvö kolefnisjöfnunarverkefni í gangi:

1) votlendi.is – þar sem kolefnisjöfnunin felst í að minnka losun á kolefni úr framræstu landi. Fjárframlagið er þá notað til að fylla upp í eða stífla skurði, og þar með endurheimta votlendi. Rúmlega 70% af kolefnislosun Íslands kemur úr framræstu landi (!) en aðeins um 15% framræsts lands er notað sem ræktunarland. Það eru því mikil og góð tækifæri til að minnka losun með endurheimt votlendis.

2) kolvidur.is – þar sem kolefnisjöfnunin felst í að binda kolefni í andrúmsloftinu með skógrækt. Fjárframlag manns fer þá í að planta trjám.

Bæði þessi verkefni eru mjög góð og unnin af fagaðilum.

PS. Svo er líka hægt að gefa kolefnisjöfnun í jólagjöf – til dæmis kolefnusjöfnun vegna notkunar fjölskyldubílsins á næsta ári

votlendi.is – https://votlendi.is/kolefnisjofnun/

kolvidur.is – http://kolvidur.is/carbon-calculator/

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com#27 Vistvænt jólaföndur

Á mörgum heimilum er jólaföndur einn af mikilvægu þáttum jólaundirbúningsins. Það er auðvelt að takmarka neikvæð umhverfisáhrif jólaföndursins t.d. með því að:

-Nota efnivið úr náttúrunni (köngla, greinar, þurrkaða ávexti, negul, við, spæni o.s.frv.).
-Nota efnivið sem er þegar til heima (forðast að kaupa nýtt föndurdót).
-Finna efnivið á nytjamörkuðum til að endurnýta.
-Nota umhverfisvottaðan pappír.
-Hægt er að gera ótrúlega hluti með einföldum pappírsbrotum (origami) og pappírsklippi. Á netinu má finna hafstjó af flottum hugmyndum.
-Nota hveitilím (blanda af hveiti og vatni, 1:3).
-Búa til trölladeig til að föndra úr.
-Forðast glimmer og ýmis konar plastskraut.
-O.s.frv.

Föndrið má svo nota t.d. til að skreyta heimilið, gefa ástvinum í jólagjöf, taka með í boðið fyrir gestgjafann og til að skreyta pakka.🌲

 

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com#28 Vistvænt í skóinn

13 vistvænar hugmyndir fyrir jólasveinana:

1. „Góðverk dagsins“. Tilmæli til barnsins um að það láti gott af sér leiða þennan dag með e-jum hætti (t.d. knúsa fimm vini, gefa fimm hrós, eiga gæðastund með systkini, brosa til tíu ókunnugra, hjálpa nágrannanum, tína rusl á skólalóðinni o.s.frv.). Því fylgir yndisleg tilfinning. Ómetanleg skógjöf!

2. Notað leikfang af nytjamarkaði.

3. Dokka af afgangs prjónagarni til að gera fingurprjón (hægt að finna leiðbeiningar á YouTube með leitarorðin „finger knitting“) og/eða búa til dúska.

4. Mandarínur.

5. Þraut með 5-10 villum og jafnvel 3-5 brandarar með (hægt að finna á netinu og skrifa á blað).

6. Súkkulaði.

7. Bambustannbursti.

8. Uppskrift af piparkökum og tími með foreldri til að baka.

9. Bók – jafnvel notuð. Eða falleg og góð dæmisaga/jólasaga (mögulega hægt að finna á netinu og prenta út).

10. Band til að gera fuglafit. Hægt að láta fylgja með texta af spennandi lagi/jólalagi/þulu/ljóði sem væri gaman fyrir barnið að kunna.

11. Mynd til að lita, t.d. af uppáhalds persónu barnsins (hægt að finna á netinu og prenta út).

12. Uglugoggur með skemmtilegu sprelli ásamt tómu blaði svo barnið geti útbúið sinn eigin gogg.

13. Myndaalbúm með myndum af eftirminnilegum augnablikum barnsins. Jólasveinninn gæti jafnvel keypt notað myndaalbúm á nytjamarkaði.

Í heildina litið vona ég annars heitt og innilega að jólasveinarnir gæti almenns hófs í skógjöfunum. „Less is more“ – ekki satt? 😉 Einnig að þeir forðist glimmer (=plastagnir), dótarí sem gengur fyrir rafhlöðum og ómerkilegt, endingastutt smádót úr plasti sem veldur aðeins skammtíma gleði. Hóhóhó! 🎅

PS. Í tengslum við Vísindavöku hefur Náttúrufræðistofnun gert myndir af ýmsum lífverum sem hægt er að prenta út og lita: https://www.ni.is/…/kynning-og…/fraedsla-fyrir-born

 

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com

#29 Ekki kaupa flugelda…

… EN höldum samt áfram að styrkja okkar frábæru björgunarsveitir með myndarlegum fjárframlögum. Mætti þess vegna mæta á flugeldasölustaðina (svona upp á hefðina og stemninguna að gera), láta sölufólkið fá pening en taka enga flugelda heim – eða kaupa af þeim Rótarskot (frábær lausn sem var boðið upp á í fyrsta sinn í fyrra).

Neikvæðu umhverfisáhrif flugeldanna birtast í gegnum allt æviskeið þeirra; við framleiðslu, flutning til landsins, notkun og öllu ruslinu sem þeir að lokum mynda (og liggur þar að auki gjarnan úti á víðavangi).

Svo get ég ekki klárað þessa færslu án þess að mæla með því að sem flestir fari í gott flugeldaplokk á nýársdag! Vúhú!! 😀

(Mynd: Matej hjá pexels.com)

Collage created using TurboCollage software from www.TurboCollage.com#30 Áramótaheit um vistvænni lífsstíl

Í heildina litið má segja að vistvænni lífsstíll felist í því að 1) Kaupa minna og 2) Velja vistvænt í sem flestum kringumstæðum. Einfalt!

Það er ekki hægt að strengja betra heit því ótrúlega margar jákvæðar „aukaverkanir“ fylgja með. Það leiðir nefnilega til þess að maður:
– Hreyfir sig meira.
– Borðar heilnæmari mat.
– Eyðir minni pening (er þá hægt að vinna minna?).
– Verður skipulagðari.
– Tileinkar sér nýtt áhugamál og þekkingu.
– Gerir umhverfinu og komandi kynslóðum (þ.m.t. börnunum okkar) gott!

Enginn mælir samt með því að þessar breytinar séu gerðar á einni nóttu. Þetta er stöðugt lærdómsferli en fyrsta skrefið er að taka ákvörðun um að kaupa minna og velja vistvænt. Maður er fljótur að ná árangri bara með því að hafa þetta tvennt að leiðarljósi í gegnum daginn.

Árangursríkast er að skilgreina 3-5 breytingar í einu, innleiða þær, skilgreina svo næstu 3-5 breytingar, innleiða þær o.s.frv.

Okkur fannst t.d. henta vel að byrja á því að hætta að kaupa einnota hluti, hár- og handsápur í brúsum, plasttannbursta, eldhúsrúllur, plastfilmur og álpappír. Svo skiptum við þessu út fyrir betri kosti eftir því sem þessar birgðir kláruðust (mæli með að hafa nýja lausn tilbúna á heimilinu í staðinn fyrir þá vöru sem á að skipta út. Eiga t.d. bambustannbursta inni í skáp þegar tími plasttannburstans er runninn út. Annars er hætt við því að maður kaupi sama hlutinn aftur í e-ju tímahraki og fljótheitum). Við fórum líka fljótt að einbeita okkur að því minnka matarsóun, kaupa meira af notuðum varningi eftir þörfum og minnka neyslu á dýraafurðum. Fleiri hugmyndir má finna hér: https://minnasorp.com

Svo er ótrúlega hjálplegt og hvetjandi að fylgjast með umræðum á netinu. Hér er listi yfir ýmsar heimasíður og Facebook-síður í því sambandi: https://minnasorp.com/tenglar/

Að lokum er skemmtilegt og hvetjandi að mæla árangurinn af breytingunum og það má gera á ýmsa vegu. Til dæmis með því að fylgjast með því hvernig pyngjan þyngist og sorpið minnkar. Best er að eiga upplýsingar um stöðu mála „fyrir breytingarnar“ til að hafa samanburðinn í framhaldinu.

Margt smátt gerir eitt stórt!

Gangi okkur öllum vel á vegferðinni til visvænni lífsstíl; um jólin og alla daga. ♥️

Ps. Þau sem hyggjast minnka sóun og breyta neysluvenjum á nýju ári, skulu endilega næla sér í miða á magnaðan fyrirlestur Zero Waste drottningarinnar Beu Johnson, sem haldinn verður 5. janúar n.k. í Veröld – húsi Vigdísar, kl. 20. Miðanum fylgir bók Beu sem gefin verður út á íslensku sama kvöld „Engin sóun – leiðarvísir að einfaldara, sorplausu heimili“. Frábær innblástur í upphafi nýs, neysluminna árs

Hægt er að nálgast miða (sem er í formi fjölnota taupoka) hér: https://www.salka.is/products/engin-soun-gjafabref-og-bok

En þeir verða líka til sölu í Vistveru, Grímsbæ og Matarbúri Kaju – vonandi strax í næstu viku. Ég mun búa til FB-viðburð og setja inn nánari upplýsingar um viðburðinn hér á þessum vettvangi á næstu dögum