Ég fæ stundum þessa spurningu; hvort það sé ekki of mikið vesen fólgið í því að minnka sorpið og flokka.
Svarið er já og nei.
Já, það er mjög mikið vesen ef þú ætlar að breyta neyslumynstrinu og minnka heimilissorpið á einni nóttu. Manni myndi fallast hendur mjög fljótt.
Nei, það er ekki mjög mikið vesen ef maður gerir breytingarnar hægt og rólega; eitt skref í einu og hefur stöðugt í huga: Kaupa minna, kaupa vistvænt. Um leið og maður er orðinn meðvitaður um að minnka sorpið þá þróast hlutirnir í rétta átt með tímanum, frekar áreynslulaust. Það er svo skrítið, maður fer að vilja gera alltaf betur í dag en í gær og fer að leita stöðugt nýrra leiða til að minnka sorpið enn frekar með einhverjum hætti. En jú, jú auðvitað gengur þetta ekki fyrir sig án smá vinnu – en það er alveg þess virði því ávinningurinn er svo mikill og hann stendur ekki á sér, sbr. hér.
Mér finnst mesta dúttlið í raun felast í eftirfarandi (og það þarf ekki að vera svo mikið vesen ef maður gerir þetta hægt og rólega – og það eru til góð ráð við þeim öllum):
- Að taka út hluti af heimilinu sem leiða til meira sorps og finna nýjar sorp- og umhverfisvænni lausnir í staðinn. Stundum er það meira að segja þannig að maður telur sig vera búin/n að finna rétta vöru en er svo ekki alveg sáttur, og þá þarf að byrja upp á nýtt … stundum þarf að prófa sig áfram. Þá er æðislegt að leita ráða á veraldarvefnum til dæmis á sumum þeirra síðna sem listaðar eru upp í Tenglar hér á þessari síðu. Það má líta á þetta sem skemmtilegan rannsóknarleiðangur – svo þegar lausnin er fundin, þá þarf bara að framkvæma. 🙂
- Að standa frammi fyrir erfiðu aðgengi að þeirri vöru sem maður vill kaupa; maður býr úti á landi en varan fæst í Reykjavík, eða: varan fæst í verslun sem er úr leið í mínum hversdagslegu ferðum, eða: varan fæst ekki á Íslandi o.s.frv. Lykillinn hér er SKIPULAGNIN. Dæmi: 1) Mín áfyllingarbúð er ekki alltaf í leiðinni fyrir mig en ég fer í hana bara tvisvar í mánuði og gæti þess að eiga þurrvörubirgðir til tveggja vikna í senn. 2) Í upphafi fann ég enga verslun í nágrenni við mig sem selur bambustannbursta fyrir börnin, þannig að ég pantaði ársbirgðir af þeim í gegnum netið. 3) Ég veit af fólki sem býr úti á landi og kaupir miklar birgðir af þurrvöru í áfyllingarbúðum í verslunum í Reykjavík sem eiga að duga til næstu borgarferðar.
- Að muna eftir að taka með fjölnota poka og umbúðir í búðina. Góð leið er að ganga frá fjölnota pokunum og umbúðunum beint í bílinn þegar búið er að taka upp úr þeim eftir búðarferð.
- Að muna eftir að hafa fjölnota bolla, vatnsflösku og jafnvel hnífapör meðferðis þegar maður er á ferðinni. Spurning um að láta þetta vera staðalbúnað í veskinu/töskunni/í bílnum?
- Að finna þá flokkunardalla og staðsetningu þeirra sem henta heimilisaðstæðum hverju sinni. Ég keypti mína dalla í Ikea og þeir standa allir úti, beint fyrir utan eldhúsið. Þegar við flytjum til Íslands sé ég fyrir mér að þeir verði geymdir inni í bílskúr. Gleymum því ekki að því minna sorp, því umfangsminni þurfa dallarnir að vera. 😉
- Að kynna sér hvernig á að flokka. Á flokkunarvef Sorpu (sorpa.is) eru mjög aðgengilegar og skýrar upplýsingar um flokkun. Það þarf þó að hafa í huga að mismunandi flokkunarreglur geta gilt í ólíkum sveitarfélögum, þannig að það er um að gera að kynna sér sérstaklega hvernig málum er háttað á hverjum stað. Þar að auki er mjög gagnlegt og peppandi að fylgjast með umræðum á fésbókarsíðunni „Áhugahópur um endurvinnslu og endurnýtingu“.
Vissulega koma stundir þar sem maður missir móðinn; hvað skiptir máli hvort við, fimm manna heimili, dropi í hafinu, reyni sitt besta til að minnka sorpið sitt…?!? Þá finnst okkur oft gott að hugsa til nokkurra leiðarljósa sem við höfum rekist á í þessu lærdómsferli.
- Hver einasti hlutur sem (ekki) er borinn inn á heimilið skiptir máli.
- ALLT sem keypt er til heimilisins verður að rusli fyrr eða síðar; bæði umbúðir og hlutirnir sjálfir.
- „Endurvinnsla er eins og aspirín; hún dregur úr fremur slæmum, sameiginlegum timburmönnum… ofneyslu.“ (William McDonough, Cradle to Cradle). Já, endurvinnslan er ekki meginlausnin við ofneyslu okkar, hún er bara eins og plástur á sárið. Hins vegar er ráðist á rót vandans í gegnum öll innkaupin okkar.
- Immanuel Kant sagði ,,Live your life as though your every act were to become a universal law.” Inntak umræddra orða má kannski túlka á þessa leið: ,,Við hverja ákvarðanatöku skaltu íhuga: Hvað myndi gerast ef allir gerðu eins og ég.” Já, hvað ef enginn myndi reyna að bæta neyslu- og sorpmál sín? En hvað ef allir reyndu sitt besta?…
- Enginn getur allt – en allir geta eitthvað!
- Hver og einn verður að bera ábyrgð á sinni neyslu – eftir eigin samvisku.
- Margt smátt gerir eitt stórt!
- Safnast þegar saman kemur!
- Árangurinn leynir sér ekki – bara gaman 🙂