1. febrúar 2020
Janúarsorpið var vigtað og myndað í gær.
– – –
Óendurvinnanlega sorpið (sem endar í urðun) var 250 grömm. Stærsti hlutinn af því var vegna málningarvinnu (málningarteip og dagblöð með málningarslettum, sem við notuðum til að verja gólf – kannski á e-ð af því heima með pappírnum, veit það ekki…). Þar voru einnig hlutir eins og ló úr þurrkaranum, plástrar, límband, sígarettustubbar, tyggjó og umbúðir úr blönduðum efnum.
Við höldum áfram að vegferð okkar að einfaldara lífi og minna sorpi með því afþakka, draga úr, endurnýta, endurvinna og jarðgera. 🙌
31. desember 2019
Sorpuppgjör desembermánaðar
– – –
Gleðilegt nýtt, neysluminna ár 2020, kæru félagar! 😘
Ástarþakkir fyrir samfylgdina og samskiptin á árinu sem er að líða. Við hlökkum til að læra meira og gera betur á nýju ári!
Flutningar frá Sviss til Íslands voru meðal markverðustu viðburða ársins hjá okkur fjölskyldunni. Við erum að afar glöð með að vera komin aftur heim 🙂
Það kom okkur ánægjulega á óvart hve auðvelt það var að halda áfram vegferðinni okkar að minna sorpi. Margir höfðu varað okkur við: „Þetta verður erfitt fyrir ykkur þegar þið eruð flutt til Íslands og bæði útivinnandi!“ – en sú var alls ekki raunin. Það er vel hægt að lifa sorpminni lífsstíl á Íslandi, ekki spurning.
Kveðjunni fylgir mynd af heimilissorpi desembermánaðar. Úr henni má lesa ýmislegt, meðal annars þetta:
– Það er ekki alltaf hægt að útiloka myndun úrgangs – það getur reynst sérlega erfitt við jólahald og þegar staðið er í framkvæmdum heima fyrir … 🎄 … en maður reynir amk sitt besta og sér þá til þess að það sem til fellur fái rétta meðhöndlun.
– Því miður höfum ekki náð fullum tökum á gosneyslunni (úrbótartækifæri fyrir 2020!) en við erum þó frekar farin að velja sykurlaust appelsín í dós (framleitt á Íslandi) í stað kóksins (framleitt í Svíþjóð). Maður getur amk reynt að lágmarka skaðann… 🙈
– Á myndinni glittir í umbúðir utan um rafhleðslustöð sem við settum upp á heimilinu, því við losuðum okkur við Land Cruiserinn 🙈 og keyptum Nissan Leaf í staðinn. Gætum ekki verið ánægðari með þær breytingar!
– Já, ég er sammála; stjörnuljósið endurspeglar „double standard“. Ég fann einn stjörnuljósapakka frá því í fyrra og stóðst bara ekki freistinguna…🤩😘❤️
1. október 2019
Sorpuppgjör septembermánaðar
– – –
Í þetta sinn var úrgangurinn muuun meiri en verið hefur. Ástæðan eru framkvæmdir sem eru í gangi á heimilinu um þessar mundir. Ýmis úrgangur (aðallega plast, pappi og óendurvinnanlegur) vegna þeirra endaði í kerrunni ásamt grófum garðúrgangi.
Úrgangur vegna hefðbundinnar neyslu endaði hins vegar í döllunum sem eru fremstir á myndinni. Mér fannst samt ekki við hæfi að vigta það e-ð sérstaklega – horfandi upp á allt hitt sorpið á kerrunni. Þannig að í þetta sinn látum við hið sjáanlega magn á myndinni tala sínu máli, sem hvatning til að gera betur í október
Það má þó geta þess að óendurvinnanlega sorpið úr hefðbundnu neyslunni hefur aldrei verið minna; það var 50 grömm! Þrátt fyrir einhverja tugi kílóa af óendurvinnanlegu framkvæmdasorpi í kerrunni – þá má líta á þessi 50 grömm sem ákveðna vísbendingu um þróun mála. 👍
1. september 2019
Erum súper ánægð með fyrsta sorpmánuðinn okkar á Íslandi.
Við náðum svissneska metinu okkar í almenna sorpinu; 140 g.
Plastið var í kringum meðaltalið sl. mánuða, 1,5 kíló.
Pappírinn er umtalsvert meiri hér en í Sviss; það kemur svo rosalega mikið af ruslpósti inn um lúguna. Þurfum greinilega að fá okkur límmiða til að afþakka fjölpóst 😉
Það er sem sagt vel hægt að minnka sorpið á Íslandi!!!
3. júní 2019
Hér er sorpið sem myndaðist í maí eftir:
– 5 manna fjölskyldu
– 30 manna Eurovisionpartý
– 27 gistinætur frábærra gesta ❤️
Já, þetta var mjög skemmtilegur mánuður!! 😄
2. maí 2019
Aprílsorpið hefur verið vigtað og er nú á leiðinni á endurvinnslustöðina.
Þetta var fremur óvenjulegur mánuður þar sem að 15 einstaklingar dvöldu hjá okkur í mánuðinum, til lengri eða skemmri tíma. Auk þess verður að taka inn í reikninginn að við fjölskyldan dvöldum á Ítalíu í heila viku og bjuggum þar til sorp sem ekki telst hér með.
Það lítur út fyrir að við munum flytja úr húsinu okkar áður en júní líður undir lok, þannig að maí verður líklega síðasti mánuðurinn sem við vigtum sorpið hér í Sviss (við munum að sjálfsögðu halda því áfram á Íslandi!). Við ætlum því að vanda okkur extra vel!!
1. apríl 2019
Marssorpið okkar hefur nú verið vigtað. Ágætar niðurstöður í ljósi þess að á heimilinu voru þrír fullorðnir og þrjú börn nánast allan mánuðinn. Almenna/óendurvinnanlega sorpið er komið í góðan gír en í apríl ætlum við að setja meiri fókus á að minnka plastið. Góðar sorpstundir!
1. mars 2019
Febrúarsorpinu hefur nú verið ekið á endurvinnslustöðina. Nú eru akkúrat tvö ár síðan við vigtuðum sorpið okkar í fyrsta sinn. Hinar tveggja ára tölur fá því að fylgja með á myndinni, svona til gamans. Læt líka fyrstu vigtunarmyndina flakka, hér beint fyrir neðan. …E-rra hluta vegna vigtuðum við ekki glerið til að byrja með…🤔
Gleðiefnið er að á þessum tveimur árum hafa hvorki plastið né óendurvinnanlega sorpið vegið meira en akkúrat þarna við fyrstu vigtun. Hinir flokkarnir (sem eru aðeins meinlausari) hafa hins vegar rokkað upp og niður.
1. febrúar 2019
Við erum ánægð með sorptölur janúarmánaðar.😃
Óendurvinnanlega sorpið, sem fer í landfyllingu eða brennslu, hefur aldrei verið minna hjá okkur; 270 g eða 2,5 lítri.
Það breytti miklu fyrir óendurvinnanlega sorpið þegar byrjað var að taka við Tetra Pak fernum til endurvinnslu hér í Sviss sl. haust. Fram að því fóru þær í óendurvinnanlega sorpið en í dag vigtum við þær með pappanum.
1. desember 2018
Nóvemberruslið fór á endurvinnslustöðina í dag.
Erum nokkuð sátt; eitt met slegið og allir flokkar undir meðaltali, nema reyndar pappírinn.
Við hlökkum til að slá ný met á nýju ári. 😃
31. október 2018
Októbersorpið á réttri hrekkjavökuleið! 🎃
Ný met í plasti, áli og óendurvinnanlegu.
Heildarmagnið 9,45 kg og aldrei verið minna.
Allir flokkar undir meðaltali.
Óendurvinnanlega sorpið minnkaði til muna þennan mánuðinn því loksins er nú hægt að setja Tetra Pak fernur (mjólkurfernurnar) í endurvinnslu hér í Sviss. Húrra fyrir því! Fram að þessu hafa fernurnar alltaf farið í óenduvinnanlega sorpið, nú eru þær vigtaðar með pappanum.
Þróunin er sem sagt í rétta átt! 😉
1. október 2018
Septembertölurnar liggja fyrir.
Okkar markmið fyrir Plastlausan september var: Plastið undir 1 kg!
…. og loksins, loksins náðum við því undir 1 kg! Það mátti nú ekki tæpara standa. Hahaha! Við fórum í enn hertari plastaðgerðir síðustu septemberdagana, þegar við sáum fram á að það væri möguleiki að ná markmiðinu ef við vönduðum okkur aaaaaðeins betur.
Það er líka gaman að sjá nýtt met í pappanum og að allar þyngdir mánaðarins (fyrir utan pappírinn) hafi verið undir meðaltali.
Heildarþyngd heimilissorpsins í september var 10,7 kg. Frá upphafi mælinga okkar hefur sú tala einu sinni verið undir 10 kg. Við viljum að sjálfsögðu sjá það gerast oftar og höldum stefnunni áfram í þá átt.
PS. Myndin er tekin í Nyon, við Genfarvatn. Frönsku alparnir í baksýn. Ef vel er að gáð má sjá Mont Blanc baða sig í kvöldsólinni.
3. september 2018
Við vorum mikið á ferðinni í júlí og ágúst, vorum heima í alls 30 daga þessa tvo mánuði. Þetta er sorpið sem safnaðist saman á þeim tíma og fór í viðeigandi sorpgáma um helgina. Við vorum undir meðaltali í öllum flokkum nema í einum og erum bara nokkuð sátt með það.
7. ágúst 2018
Við höfum verið nokkuð mikið að heiman í júlí og hið sama mun gilda um ágústmánuð. Vigtunartölur fyrir júlí verða því sameinaðar ágústtölunum sem birtar verða í byrjun september.
Í staðinn koma hér myndir af dóti sem safnaðist saman við allsherjar skápa- og geymslutiltekt um daginn og er nú annars vegar á leiðinni á endurvinnslustöðina og hins vegar á nytjamarkaðinn þar sem það fær vonandi framhaldslíf.
Þvílíka dótið sem sem rúllar stöðugt inn á heimilið – og síðan út aftur. Eins gott að vera vakandi í öllum innkaupum og hafa í huga að allir hlutir verða jú að endingu að rusli…
2. júlí 2018 – Niðurstöður fyrir júní
Það verður nú skítlétt að gera betur en þetta í næstu mælingum. Jákvæði punkturinn er lítið magn af óendurvinnanlega ruslinu.
Markmiðið er ennþá að ná plastinu undir 1 kg, það mun nást fyrr en síðar.
8. júní 2018 – Niðurstöður fyrir maí
Í upphafi mánaðarins ákváðum við að stefna að því að ná plastinu undir 1 kg. Þegar við sáum svo fram á að það yrði óvenju gestkvæmt hjá okkur í maí þá áttuðum við okkur á því að það markmið myndi líklega ekki nást í þetta sinn. Fjöldi gistinátta vina og ættingja í maí endaði í 56 – með tilheyrandi gleði og glaumi. Við getum því ekki verið annað en sátt við þessar niðurstöður og höldum ótrauð áfram að minnka plastið og heimilissorpið almennt.
3. maí 2018 – Niðurstöður fyrir apríl
Heimilissorp aprílmánaðar kom við á vínekru einni á leið sinni á endurvinnslustöðina í gær. Það virðist stefna í ágætisuppskeru í haust!🍷
—
Niðurstöður í plasti og óendurvinnanlega sorpinu hafa ekki verið betri en það verður að skoðast í ljósi þess að heimilisfólk var þó nokkuð að heiman í apríl.
Við höfum sett okkur markmið fyrir maí: Plast undir 1 kg.
Skál fyrir því!
31. mars 2018 – Niðurstöður fyrir mars
GLEÐILEGA PÁSKAHÁTÍÐ
Sjóðheitar sorpniðurstöður marsmánaðar duttu í hús rétt í þessu. Eins og við var að búast er þetta kannski ekki besti árangurinn sem sést hefur, enda sóttu frábærir gestir okkur heim meira og minna allan mánuðinn og við fremur slök í sorpmeðvitundinni. Á morgun byrjar nýr mánuður með nýjum tækifærum til að hressa upp á sorptölur heimilisins.
1. mars 2018 – Niðurstöður fyrir febrúar
Niðurstöðurnar fyrir febrúar eru komnar í hús: Markmiðið var að heildarkílóafjöldi heimilissorpsins yrði undir 10 kg en hann endaði í 10,1 kg.
Bara ef ég hefði sleppt því að stúta hvítvínsflöskunni (ca 400 g tóm) þarna um daginn …... eða nei annars, hún var alveg þess virði.
Við getum ekki verið annað en ofsa kát með niðurstöðurnar.
– Heildarkílóarfjöldinn hefur aldrei verið minni, en fyrir var hann minnstur 10,5.
– Ný met voru slegin í þremur flokkum: plastinu, pappanum og óendurvinnanlega sorpinu.
Eitt af því sem við huguðum extra vel að í þessum mánuði var að minnka matarsóun. Það er svo ótrúlega margt jákvætt sem vinnst með því; umhverfisvænna, minni umbúðir, þyngri pyngja!
Við höldum ótrauð áfram í þessu skemmtilega sorpverkefni okkar. Sá mánuður mun renna upp þar sem plastið er undir 1 kg og heildarkílóafjöldinn heimilissorpsins undir 10 kg. Við erum amk á réttri leið.
2. febrúar 2018 – Niðurstöður fyrir janúar
Heildarmagn janúarsorpsins var 11,3 kg sem er annar besti árangur okkar frá upphafi mælinga í febrúar 2017.
Heimilissorpið hefur vegið minnst 10, 5 kg. Það var í október 2017.
Nú er akkúrat ár liðið síðan við byrjuðum sorpævintýrið okkar en það var í tengslum við Meistaramánuðinn í fyrra. Þá vóg febrúarsorpið okkar 20 kg – fyrir utan glerið.
Við þessi tímamót er vel hæfi að setja sérstakt sorpmarkmið fyrir Meistaramánuð 2018:
„Heildarmagn febrúarsorpsins undir 10 kg“ !!! … og berjast!
3. janúar 2018 – Niðurstöður fyrir desember
Gott og gleðilegt ár! Við förum full tilhlökkunar inn í 2018 á vegferð okkar til minna sorps.
Nú er desembersorpið okkar komið á endurvinnslustöðina eftir skemmtileg hátíðarhöld. Miðað við stærsta neyslumánuð ársins þá má segja að niðurstöður fyrir plastið, álið og óendurvinnanlega sorpið séu fínar, því það hafa sést hærri tölur í þeim flokkum frá því við byrjuðum þetta verkefni. Magnið af pappír, pappa og gleri hefur hins vegar aldrei verið eins mikið…
Fjöldi heimilisfólks rokkaði frá 4 til 8 þennan mánuðinn enda var frekar gestkvæmt, sem var æðislega gaman! Þess má líka geta að við fórum þrjú úr fjölskyldunni í vikulanga ævintýraferð til Paragvæ til að vera við brúðkaup. Á meðan dvöldu litlu snúðarnir okkar tveir hér heima með ömmu sinni og afa, sem stóðu sig hreint frábærlega í að sinna heimilissorpinu – já, og auðvitað drengjunum líka 😉 .
Þeir sem hafa sett sér áramótaheit um að minnka sorpið (enn frekar!) ættu endilega að koma í hinn nýstofnaða Facebookhóp „Sorpsigrar”.
Það er alls ekki mikið vesen fólgið í því að reyna að minnka sorpið, eins og sjá má hér, einkum ef það er gert skref fyrir skref og ávinningurinn er mikill! Hér eru dæmi um 40 leiðir sem hægt er að fara í þeim tilgangi. Góða skemmtun!
1. desember 2017 – Niðurstöður fyrir nóvember
12,7 kg af nóvembersorpi á leiðinni á endurvinnslustöðina – þar af 1,3 kg af plasti sem er nýtt met.
Reyndar átti sér stað smá brottkast fyrr í mánuðinum þegar ein steikarpanna fór í endurvinnslu án þess að vera vigtuð. Það var kveðinn upp úrskurður um að gera þetta svona því pannan vegur um 1000 kg eða eitthvað álíka og hefði skekkt illilega allan samanburð…
1. nóvember 2017 – Niðurstöður fyrir október
Októbersorpið hefur verið vigtað og flutt á endurvinnslustöðina.
Heildarþyngd þess nam 10,5 kg – sem er nýtt met. Kannski rennur þá fljótlega upp sá mánuður sem við náum að halda okkur undir 10 kg?
Í fyrsta sinn frá upphafi okkar mælinga var engin breyting á plasti eða óendurvinnanlega sorpinu á milli mánaða. Ætli við komumst nokkuð neðar í þeim flokkum?
Já, já – það eru æsi spennandi sorp-tímar framundan…!
2. október 2017 – Niðurstöður fyrir september
Í byrjun mánaðarins settum við okkur tvö markmið í tilefni af Plastlausum september (sjá færslu hér fyrir neðan frá 1. september sl.).
Það er skemmst frá því að segja að við náðum ekki fyrra markmiðinu EN heildarþyngd alls sorps að undanskildu glerinu var 9,5 kg og það er met hjá okkur.😃 Verst að pundið í glerinu skuli vera svona þungt… Það er líka gaman að geta þess að heildarþyngd alls septembersorpsins nam 14,4 kg sem er minna en meðaltalið fyrir maí og júní.
Hvað seinna markmiðið varðar þá náðum við því en septemberplastið okkar vóg 1,4 kg – og það er annað met 😃
Þannig að við erum glöð í bragði og höldum ótrauð áfram að vinna að minna heimilissorpi!
1. september 2017 – Markmið fyrir Plastlausan september
Þetta verður eitthvað, sjáum hvað setur…
7. júlí 2017 – Niðurstöður fyrir júní
Gaman að sjá plastið og óendurvinnanlega sorpið minnka smám saman – ætlum að vinna betur í öðrum flokkum
12. júní 2017 – Niðurstöður fyrir maí
Minna heimilissorp í maí. Þetta potast – hægt og rólega
6. maí 2017 – Niðurstöður fyrir apríl
Við erum voða glöð með árangurinn og hlökkum til að halda áfram að minnka heimilissorpið og gera það umhverfisvænna!
7. apríl 2017 – Niðurstöður fyrir mars
Við gátum ekki hætt eftir Meistaramánuðinn – við vildum halda áfram þessu skemmtilega verkefni að minnka heimilissorp fjölskyldunnar!
Ég er svo ánægð að sjá að plastið og óendurvinnanlega sorpið minnkaði á milli mánuða þrátt fyrir gróteska grisjun í baðherbergis- og hreinsiefnaskápum heimilisins í mars. Hvað óendurvinnanlega sorpið varðar skipti mestu máli að yngsta barnið notaði engar bleiur í mars. Ætli aukning á pappír og pappa skýrist ekki m.a. af því að við völdum í auknum mæli vörur sem voru í pappírs/pappa-umbúðum frekar en í plastumbúðum.
PS. Plastið í aprílmánuði skal vega minna en 3 kg!
3. mars 2017 – Niðurstöður fyrir Meistaramánuð (febrúar)
Við fjölskyldan tókum virkan þátt í Meistaramánuðinum þetta árið. Það staðfestist hér með að markmiðunum var náð…úje!! -sbr. mynd.
10. febrúar 2017 – Ballið byrjar!
Meistaramánuður – Minna heimilissorp 🙂
Við fjölskyldan tökum virkan þátt í Meistaramánuðinum þetta árið.
Okkar markmið eru eftirfarandi:
1) Allt óendurvinnanlegt sorp í febrúar rúmist að hámarki í einum poka, sbr. mynd.
2) Allt plast, ál og pappír í febrúar rúmist að hámarki í fjórum ílátum, sbr. mynd.