40 skref til minna sorps

KAUPA MINNA – KAUPA VISTVÆNT

Bea Johnson hefur komið fram með frábæra leið til að minnka heimilissorpið með nálguninni Líf án sorps („Zero Waste“). Ég setti smá umfjöllun um það hér á þessari heimasíðu. Hvet alla til að kynna sér Beu og Líf án sorps – það veitir manni þvílíkan innblástur!

Ég ákvað að gamni að setja líka upp lista yfir 40 skref sem við höfum verið að æfa okkur að taka í hinu daglega amstri til að minnka sorpið, svona í anda Lífs án sorps:

1. Kaupa minna – sérstaklega af því sem talist getur óþarfi, smádót, drasl eða gerviþörf. Best er að horfa á öll innkaup í gegnum krítísk gleraugu og velta fyrir sér: „Er þetta nú alveg nauðsynlegt? Þetta verður á endanum að rusli. Úr hverju er varan? Hvernig eru umbúðirnar? Get ég keypt vöruna/staðgönguvöru úr vistvænni efnum/vistvænni umbúðum/notaða? … osfrv.“ 

18901412_10212963726664860_996794928_o

2. Minnka matarsóun t.d. með því að elda rétt magn, nýta afganga og frysta.

 

3. Hætta að kaupa vatn í plastflöskum. Vera með fjölnota flösku alltaf tiltæka sem hægt er að fylla á – líka í útlöndum. 😉

4. Kaupa notað. Það minnkar sóun á verðmætum, peningum og umbúðum! Geggjað! Hægt er að leita til fjölda Facebook síðna, Blands, Góða hirðisins, Kolaportsins, Rauðakrossbúða, Hertex og annarra nytjamarkaða.

17038743_10212008239018266_3681752368917133382_o

5. Gefa heillega hluti sem hætt er að nota til vina, ættingja, safnanna af ýmsu tagi, Rauða krossins eða annarra nytjamarkaða – nú eða selja þá. 😉 Þetta stuðlar að virkari markaði á notuðum hlutum.

6. Kaupa vörur sem hægt er að fylla á í eigin ílát, til dæmis í eftirfarandi verslunum:

  • Matarbúr Kaju, Akranesi – mikið úrval af matvöru fyrir umbúðalaus innkaup.
  • Vistvera, Grímsbæ – umbúðalaust tannkrem og sápur af ýmsu tagi.
  • Bændur í bænum – lífrænt grænmeti, ávextir og olía o.fl.
  • Frú Lauga – grænmeti, ávextir og olía o.fl.
  • Heilsuhúsið – áfyllingar á sápu fyrir heimilisþrif, te o.fl.
  • Krydd og tehúsið – umbúðalaust krydd og te.
  • Græna stofan, hárgreiðslustofa – áfyllingar á sjampó og hárnæringu.
  • Hagkaup – hnetu- og nammibarir.

IMG_8519

7. Kaupa/þiggja aldrei plastpoka heldur vera með mismunandi fjölnota poka alltaf á takteinum í töskunni, í bílnum og/eða á hjólinu – nú eða stinga því keypta bara ofan í tösku eða halda á því. 😉

 

8. Hætta að nota nestispoka og plastfilmur. Nota frekar fjölnota ílát, vaxpappír og/eða margnýta plastpoka af vörum sem þegar hafa verið keyptar inn á heimilið. Pokar undan morgunkorninu eru til dæmis mjög góðir!

9. Nota fjölnota poka eða endurnýta aðra poka undir brauð, sætabrauð, grænmeti og ávexti – ef þarf að setja vörurnar í einhvers konar umbúðir á annað borð.

IMG_8573

10. Minnka gos- og sælgætisneyslu. 

11. Fara með fjölnota ílát í kjöt- og fiskborð verslanna og fá afurðir afhendar í þau.

 

12. Fara með fjölnota ílát undir ís, safa og brottnámsfæði/útrétti (e. ,,take away”). 

17159217_10212135837728154_514474269755094752_o

13. Hætta að nota/kaupa einnota borðbúnað (hnífapör, glös, diskar, rör o.þ.h.) bæði heima fyrir og á ferðinni. Það er til dæmis auðvelt að afþakka rör á veitingastaðnum, koma með eigin skeið í ísbúðina eða hnífapör á stað sem býður bara upp á plasthnífapör. Ekki vitlaust að vera með „skaffal“ í töskunni eða skeið og hnífapör tiltæk í bílnum.

 

14. Fara með fjölnota ílát á veitingastaðinn ef matarafgangur verður eftir sem hægt er að taka með heim. 

15. Nota fjölnota bolla þegar kaffibolli er keyptur á ferðinni – jafnvel taka einn slíkan með í flugvélina!16836436_10211979876029209_6599062848886330616_o

16. Ekki nota einnota kaffihylki þegar hellt er upp á kaffi.

 

17. Vera opin/n fyrir því að hafna innkaupum á vöru sem er í óumhverfisvænum umbúðum eða gerðar úr óumhverfisvænum efnum og finna í staðinn aðra umhverfisvænni lausn. Dæmi: þvottaklemmur, herðatré, skurðarbretti, eldhúsáhöld, leikföng,  tannburstar og uppþvottaburstar úr við frekar en plasti. Auðvitað er ekki alltaf til alveg samskonar vara í umhverfisvænni búning, en oft er hægt að finna umhverfisvænni leið sem þjónar sama tilgangi engu að síður. Dæmi: íslensk súkkulaðiísterta í eftirrétt, í stað súkkulaðimúsar í plastbollum innflutt frá útlöndum. Hér er gott að vera opin fyrir lausnum. 😉       

18. Sneiða fram hjá magntilboðum þar sem tveimur eða fleiri vörum er pakkað saman í plast tilboðsins vegna. Ef ég þarf að kaupa gos eða bjór reyni ég til dæmis að sneiða fram hjá kippum í plasti; kaupi frekar stakar dósir. Það munar oft ekki nema einhverju klinki í verði.

19. Þiggja aldrei ,,freebies”, þ.e. varning ýmis konar sem fyrirtæki gefa í markaðssetningar- og sölutilgangi og hefur gjarnan skammtíma notagildi fyrir viðtakanda (dæmi: smáleikföng, merktir pennar, bolir, prufur, hlutir sem gefnir eru um borð í flugvélum, á hótelherbergjum og í bönkum o.s.frv.).

IMG_0879 copy

20. Minnka/hætta neyslu á dýraafurðum – já, ég hef þetta hér með þó við séum ekki alveg orðin 100% vegan eða grænmetisætur – en við erum á góðri leið með það. Þessar afurðir eru bara svo oft í miklum umbúðum. Þess fyrir utan er hreinlega umhverfisvænna að sneiða sem mest hjá þeim vörum.

21. Sneiða fram hjá vörum með glimmeri á, því glimmer er örplast.

22. Nota sápustykki í stað fljótandi sápu á salernum. Minni pakkningar og endast muuun lengur!

IMG_8515

23. Nota sápustykki og uppþvottabursta úr við (fæst til dæmis á mistur.is og í Söstrene Grene) við uppvaskið.IMG_8545 copy

24. Hætta að nota eldhúsrúllur og blautþurrkur, hvort sem er fyrir þrif og bleiusvæði. 

25. Hætta að nota mýkingarefni.

26. Kaupa umhverfisvænt þvottaefni í pappaöskjum, til dæmis Ecover, fæst í Bónus – og nota lítið í einu. Það er líka hægt að fara í Heilsuhúsið og kaupa áfyllingar af Ecover þvottaefni  í vökvaformi. Sumir nota einfaldlega edik og matarsóda…

27. Nota vatnsblandað edik í heimilisþrifin. Ég notast líka við scrubstone; það endist svo vel (t.d. miðað við Cif) og er gert úr umhverfisvænum efnum (a.m.k. tegundin sem ég kaupi). 

28. Nota tannbursta úr bambus í stað plasttannbursta (fæst t.d. í Fjarðarkaupum, Melabúðinni, Heilsuhúsinu og mistur.is).

 

29. Hætta/minnka notkun á eyrnapinnum – sérstaklega þeim sem eru með plastpinna og í miklum plastumbúðum.

IMG_2549

30. Hætta/minnka notkun á hárnæringu og sjampói. Kaupa hárvörur sem eru ekki í plastumbúðum og/eða eru áfyllanlegar í fjölnota ílát (til dæmis er hægt að fá áfyllingu hjá hárgreiðslustofunni Græna Stofan, Óðinsgötu 7).

31. Nota taubleiur, fjölnota bómullarskífur, taudömubindi og álfabikar – í stað einnota.IMG_8536

32. Gefa gjafabréf og upplifanir af ýmsu tagi í tækifærisgjafir. Notaðar bækur frá fornbókasölum eru líka skemmtileg gjöf – þar geta leynst skemmtilegar gersemar!

33. Koma sér upp fjölnota veisluskrauti sem hægt er að nota aftur og aftur (það má líka vel nota sömu afmæliskertin í nokkur afmælis-skipti!) og sneiða almennt hjá öllu einnota dóti í veisluhöldunum. Ok, það kostar kannski meiri tíma í uppvaskið – en það sparar tímann í innkaupum í staðinn ;).

IMG_8443

34. Endurnýta gjafapappír og pakkabönd sem koma inn á heimilið.

35. Búa til pakkamerkimiða fyrir alla fjölskyldumeðlimi á heimilinu og nota aftur og aftur…

36. Nota eldspýtur í stað kveikjara.

37. Nota fjölnota poka í garðvinnuna – gleymum bara þessum svörtu ruslapokum…

IMG_3366

38. Koma með tillögur til nærumhverfis okkar um hluti sem má betur fara í þessum efnum – til dæmis hjá vinnuveitanda, skóla, verslunum, ræktinni o.s.frv.

39. Flokka vel allt það sem getur farið til endurvinnslu – líka lífrænan úrgang. Á sama tíma hafa í huga að því minna sorp (hvort sem það fer til endurvinnslu eða í landfyllingu/brennslu) – því betra!

40. Hafa gaman og njóta þessa skemmtilega verkefnis! Margt smátt gerir eitt stórt – og árangurinn leynir sér ekki. 🙂

7 svar við 40 skref til minna sorps

  1. Nafnlaust sagði:

    Hvar fékkstu þennan fjölnota garðpoka?

    Líkað af 1 einstaklingur

    • thoramargret sagði:

      Ég keypti þennan poka sem hér sést í byggingavöruverslun í Sviss.
      Ég fann þá hins vegar ekki í fljótu bragði þegar ég leitaði á heimasíðum Byko, Húsasmiðjunnar og Blómavals. En ég veit að hægt er að fá fjölnota poka fyrir garðúrgang á Facebooksíðunni „Fánapokar – Fjölnota pokar“ og mistur.is. Þeir eru búnir til úr efni sem fellur til við framleiðslu fána. 😉

      Líkar við

  2. Nafnlaust sagði:

    Svakalega er ég ánægð með þetta. Mikil áskorun.

    Líkað af 1 einstaklingur

  3. Kristín Þorgerður Magnúsdóttir sagði:

    Í fjölskyldunni minni höfum við verið að sauma jólapoka úr fallegum jólaefnum sem síðan eru notaðir ár eftir ár. Í garðinn hef ég notað bláu pokana úr IKEA sem eru endast vel og hægt að stinga í þvottavél. Að síðustu vil ég minnast á að fólk safnar mjög oft dósum og flöskum í plastpoka
    Gráupplagt er að eiga margnota poka t.d. Dimpa IKEA poka til að safna dósunum

    Líkað af 1 einstaklingur

  4. Hrefna Hjálmaarsdottir sagði:

    Margt af þessu er kunjuglegt og mér hefur tekist að tileinka mér. En þarna eru margar þarfar ábendingr eins og t.d.með shampoo og fjölnota poka fyrir ´þa sem fellur til í garðinum og ótal margt fleira. Takk fyrir þetta.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd