Um okkur

Heil og sæl!

IMG_2570

Ég heiti Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, er gift Ögmundi Hrafni og saman eigum við þrjú börn fædd 2008, 2013 og 2014. Við bjuggum í Genf í Sviss í sex ár og fluttum heim til Íslands sumarið 2019.

Við fjölskyldan höfum smám saman verið að reyna að átta okkur á ábyrgð okkar sem neytendur þegar kemur að loftslagsmálum. Getur verið að heimili okkar fimm manna fjölskyldu sé hluti af vandamálinu um aukna hlýnun jarðar og að við berum þ.a.l. skyldu til að taka þátt í að a.m.k. takmarka það?

Jú, vissulega höfum við flokkað heimilissorpið síðan 2011 og nánast hætt plastpokanotkun – en í febrúar 2017 (í Meistaramánuðinum) byrjuðum við markvisst að reyna að taka meiri ábyrgð á neyslu okkar. Markmiðið var að takmarka ALLT mánaðarsorp heimilisins þannig að það myndi aðeins rúmast í þeim hvítu Ikea-döllum sem við notuðum til flokkunar og að óendurvinnanlega sorpið yrði aðeins einn poki.

Markmiðin voru ákveðin út frá fyrri reynslu – en við töldum að þetta yrði a.m.k. helmingun á því sorpmagni sem eftir okkur lá á fjögurra vikna tímabili, mánuðina á undan.

Það er skemmst frá því að segja að við náðum markmiðum okkar í Meistaramánuðinum. Við ákváðum svo að halda áfram og reyna að gera betur, því okkur þótti verkefnið fáránlega skemmtilegt! Þetta snerist ekki bara um að flokka betur – heldur miklu frekar að MINNKA ALLT heimilissorp, bæði það sem má flokka/endurnýta og það sem fer í landfyllingu/brennslu. Það var gert fyrst og fremst með smá breytingum á kaup- og neytendahegðun okkar – því allt sem keypt er verður jú að einhvers konar úrgangi/sorpi, fyrr eða síðar.

Hvernig breyttum við kaup- og neytendahegðun okkar? Við komumst gríðarlega langt bara með því hugsa: KAUPA MINNA og KAUPA VISTVÆNT. En það er hægt að gera ótal margt í þessu sambandi og það er tiltölulega einfalt og áreynslulaust ef maður tekur eitt skref í einu. Skrefin fimm í þeim sorplausa lífsstíl (Zero Waste) sem Bea Johnson hefur boðað hafa reynst okkur sérlega gagnleg í þessum efnum, þ.e.

  1. AFÞAKKA – það sem við þurfum ekki.
  2. DRAGA ÚR – það sem við þurfum og getum ekki sleppt því að þiggja.
  3. ENDURNÝTA – þá hluti sem við þurfum að nota.
  4. ENDURVINNA – það sem við getum ekki sleppt því að þiggja, einfaldað eða endurnýtt.
  5. JARÐGERA – jörðina með lífrænum úrgangi.

Ef þessum fimm skrefum er fylgt eftir til hins ýtrasta, þá ætti niðurstaðan að verða sjálfkrafa: Ekkert sorp!

Auðvitað er ekki hægt að lifa án þess að búa til nokkurt sorp, framleiðsluaðferðir nútímans koma í veg fyrir það. En sorplaus lífsstíll gefur manni magnbundið viðmið eða e.k. gulrót sem maður vill komast eins nálægt og mögulegt er.

IMG_8350

Á þessari heimasíðu okkar, minnasorp.com, má finna dæmi um þau skref sem við höfum verið að vinna með.

Svo er líka hægt að kíkja í bókina hennar Beu Johnson ,,Engin sóun – Leiðarvísir að einfaldara, sorplausu heimili“  sem kom út í þýðingu minni í byrjun árs 2020. Hún fæst m.a. á salka.is og Pennanum/Eymundsson.

Við erum enn í miðju lærdómsferli varðandi þessi neyslu- og sorpmál og margir komnir muuun lengra á þessu sviði. Við hlökkum til að halda áfram að minnka ALLT heimilissorp enn frekar, lifa vistvænni lífsstíl, læra meira og gera betur í dag en í gær.

Að minnka heimilissorpið er sem sagt ákveðin þróun – og þá sögu langaði okkur til að birta hér ef einhver skyldi hafa áhuga á og/eða væri tilbúin/n til að veita okkur ráð, deila reynslu o.s.frv. 🙂

Kærar þakkir fyrir innlitið, ekki hika við að setja hér inn línu og síðast en ekki síst:

Eigið frábærar neyslu- og sorpstundir 🙂

 

Bók Beu Johnson á íslensku: Engin sóun – Leiðarvísir að einfaldara, sorplausu heimili 

11 skemmtilegir hlaðvarpsþættir um sorplausan lífsstíl með okkur Frey Eyjólfssyni, Terru, á Kjarnanum: Skiljum ekkert eftir.

 
Umfjallanir um verkefnið:
 
Fyrirlestur um verkefnið okkar og Líf án sorps (Zero Waste): https://www.youtube.com/watch?v=YVippxHtrpE&feature=share
 
 
 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s