Sorplaust líf / Zero Waste

 

Bea Johnson er geggjuð pía!!A25496CE-1B61-4CBE-97B4-9B50E90A483A

Hún er franskur frumkvöðull sem býr í Kaliforníu, Bandaríkjunum með manni sínum og tveimur unglingspiltum. Neysluvenjur þessarar fjölskyldu eru svo sannarlega til fyrirmyndar en árið 2008 steig Bea fram með það sem hún kallar „Zero Waste” eða sorplaust lífsstíll. Síðan þá hefur árlegt heildarmagn af óendurvinnanlegu sorpi þessarar fjögurra manna fjölskyldu rúmast í eins lítra krukku – og nú hafa margir fetað í hennar fótspor.

Lestu allt um lífsstíl Beu í bók hennar ,,Engin sóun – Leiðarvísir að einfaldara, sorplausu heimili“ sem fæst á salka.is og Penninn/Eymundsson.

Screen Shot 2017-09-07 at 20.35.18

Lífsstíllinn snýst í raun um að endurvinna minna, en ekki meira – með því að takmarka ALLT sorp heimilisins með fimm skrefum. Hér er um að ræða R-in fimm (ef lykilorðin eru höfð á ensku – Refuce, Reduce, Reuse, Recycle, Rot) eða ráðin fimm í íslenskum búningi en þau eru sett upp með eftirfarandi hætti:

80447192_456546258578992_8198200937148317696_n

Ráðin fimm 
„Engin sóun – Leiðarvísir að einfaldara, sorplausu heimili“ eftir Beu Johnson, 2020

Fyrstu tvö skrefin felast í að takmarka allan þann varning sem við berum inn á heimilið (sem verður svo fyrr eða síðar að rusli), það þriðja í meðvitaðri neyslu og síðustu tvö í meðhöndlun þess úrgangs sem myndast. Nánar til tekið felast skrefin í eftirfarandi:

1. Afþakka (refuse) það sem við þurfum ekki. Þ.e. koma í veg fyrir að óþarfa hlutir berist inn á heimilið með því að afþakka hluti sem okkur er boðið og við höfum ekki  þörf fyrir. Dæmi:

  • Afþakka einnota plast af ýmsum toga (poka, flöskur, glasamottur, rör, borðbúnað o.þ.h.).
  • Afþakka hluti sem notaðir eru til markaðssetningar (penna, boli, prufur, varning á hótelherbergjum og flugvélum o.þ.h.).
  • Afþakka ruslpóst (Bea endursendir þann ruslpóst sem hún fær!)
  • Huga að ósjálfbærum venjum (afþakka kvittanir, nafnspjöld o.þ.h.).

2. Draga úr (reduce) það sem við þurfum og getum ekki sleppt að þiggja. Þ.e. fækka þeim hlutum sem við teljum okkur þurfa.  Minni neysla er eitt af áhrifaríkustu svörunum við umhverfisvanda heimsins.  Auk þess leiðir hún til þess að maður getur lagt meiri áherslu á gæði umfram magn og upplifun umfram efnislega hluti 🙂 Það sem hægt er að gera í þessu sambandi:

  • Fara yfir alla þá hluti sem keyptir hafa verið inn á heimilið, meta raunverulegt notagildi þeirra og losa sig við óþarfa muni með því að gefa þá eða selja. Með þessu verðum við mun meðvitaðri í öllum innkaupum okkar í framhaldinu. Auk þess stuðlum við að virkari markaði á notuðum hlutum, verðum jafnvel opnari fyrir því að kaupa notaða hluti og auðveldar okkur að viðhalda ruslfríum lífsstíl.
  • Trappa niður neysluna, til dæmis með því að forðast að reyna að uppfylla gerviþarfir, sneiða hjá umbúðamiklum vörum, minnka bílanotkun, minnka útprentanir, hætta notkun á einnota vörum og kaupa minna magn ef svo ber undir. Við innkaup skoða hvort raunveruleg þörf sé á viðkomandi vöru og huga að líftíma hennar. Reyna auk þess að velja vöru sem hægt er að endurnýta eða a.m.k. endurvinna.
  • Draga úr athöfnum sem leiða til aukinnar neyslu.

3. Endurnýta (reuse) það sem við þurfum að nota. Þ.e. nýta vel þá hluti sem við  getum ekki afþakkað eða dregið úr Með góðri nýtni náum við að:

  • Takmarka neyslu sem hefur sóun í för með sér – t.d. þegar við forðumst innkaup eða notkun á einnota hlutum. Nú eða þegar við notum fjölnota poka og ílát við innkaupin.
  • Draga úr ofnýtingu auðlinda og offramleiðslu – t.d.  þegar við deilum hlutum með öðrum (t.d. slátturvélinni), lánum þá eða leigjum.  Einnig þegar við kaupum notað, kaupum hluti sem endast lengi eða hluti sem hægt er að fylla á (pennar, rafhlöður o.s.frv).
  • Auka líftíma hluta – t.d. þegar við gerum við hluti, finnum nýjar notkunarleiðir þegar ekki er hægt að nýta hluti í það sem upprunalega var ætlast til (t.d. saumum poka undir brauð úr slitnum rúmfötum) eða skilum hlutum til baka til verslanna/þjónustuaðila eftir notkun (t.d. herðatrjám í hreinsunina).

4. Endurvinna (recycle) það sem við getum ekki afþakkað, dregið úr eða endurnýtt.
Bea vísar í mjög svo eitraða tilvitnun í umfjöllun sinni um endurvinnslu: „Endurvinnsla er eins og aspirín; hún dregur úr fremur slæmum, sameiginlegum timburmönnum… ofneyslu.“ (William McDonough, Cradle to Cradle).

Ólíkar reglur gilda um endurvinnslu á ólíkum stöðum, ferlið er orkufrekt og við það tapast oft verðmæti úr þeim efnum sem verið er að endurvinna – og í sumum tilfellum er ekki hægt að endurvinna vörur sem hafa verið endurunnar áður. Þó endurvinnsla sé mikilvæg er staðan því miður þannig að hún getur ekki talist vera aðallausnin við sorpvanda okkar tíma. Skilvirkast er að eyða meira púðri í skrefin þrjú sem nefnd hafa verið fyrir framan – og fækka þar með hlutum til endurvinnslu eins og mögulegt er.

5. Jarðgera (rot) afganginn með lífrænum úrgangi. Til eru fjöldi leiða til þess og vert að kynna sér þær. Í Sviss söfnuðum við lífræna úrganginum í dall og fórum með hann á tveggja vikna fresti á endurvinnslustöðina. Eftir að við fluttum til Íslands í júlí 2019 keyptum við okkur einangraða jarðgerðartunnu með loki (ásamt stoðefni og gaffli) og höfum sett hana upp hér úti í garðinum okkar … so far so good! 🙂

(Í umfjölluninni hér að ofan var stuðst við efni sem kemur fram í bók Beu „Engin sóun – Leiðarvísir að einfaldara, sorplausu heimili“ sem fæst á salka.is og í Pennanum/Eymundsson).

– – –

Já, það er sko afar auðvelt að hrífast að Beu og þeim lífsstíl sem hún boðar. Hún veitir gríðarmikinn innblástur með bókinni sem hún hefur gefið út („Zero Waste Home“) og á heimasíðu sinni zerowastehome.com þar sem nálgast má vídeó og annað efni um Líf án sorps. Auk þess hefur Bea haldið fjölda fyrirlestra um allan heim m.a. TED fyrirlestra sem birtir eru á netinu. Hér er til dæmis hægt að nálgast TED fyrirlestur hennar frá desember 2016. Mæli eindregið með að þið kíkið á þetta! Bea er æði. 🙂

Bea Johnson og krukkan góða á Íslandi 5. janúar 2020
í tilefni af útgáfu bókar hennar í íslenskri þýðingu

Færðu inn athugasemd